Úlfar Ágústsson – Minningarorð

6. apríl 2024 | Fréttir, Tónlistarfélagið

Úlfar Ágústsson – Minningarorð

Í dag kveðjum við Úlfar Ágústsson athafnamann í hinsta sinn. Hann var formaður Tónlistarfélags Ísafjarðar síðasta áratug tuttugustu aldar og er óhætt að segja að það hafi verið á miklum umbrotatímum í málefnum tónlistarkennslu á Ísafirði. Húsnæðismál Tónlistarskólans, sem er eign Tónlistarfélagsins, höfðu um langa hríð verið til umræðu og var mikill hugur í fólki að koma þeim á betri stað. Kennt var á mörgum stöðum í bænum og þegar hreyfing komst á málin var kennt á fjórtán stöðum í bænum! Sérstaða Tónlistarskóla Ísafjarðar er sú, eins og áður er nefnt, að hann er sjálfseignarstofnun borinn uppi af áhugafólki. Hefur starfsemin notið þess að alltaf hefur verið til staðar fólk tilbúið til að leggja á sig ómælt erfiði í sjálfboðavinnu til þess að gera veg Tónlistarskólans og tónlistarlífinu í Ísafjarðarbæ sem hæst undir höfði. Þar hefur lagt þung lóð á vogarskálarnar Úlfar Ágústsson. Umbrotatímar verða ekki til af sjálfu sér. Til þess að þeir megi verða þarf til fólk sem með hugmyndaauðgi og krafti koma hlutunum af stað. Á tíma Úlfars sem formanns fékk Tónlistarskólinn varanlegt húsnæði á einum stað þar sem áður var Húsmæðraskólinn Ósk. Einnig var hafin bygging á Hömrum, tónleikasal Tónlistarfélagsins og Tónlistarskólans.
Við í stjórn Tónlistarfélags og Tónlistarskóla Ísafjarðar færum aðstandendum Úlfars dýpstu samúðarkveður.
Steinþór Bjarni Kristjánsson, formaður.
.