Jónas Tómasson

13. janúar 2022 | Fréttir, Tónlistarfélagið

Hinn 13. apríl sl. voru 140 ár liðin frá fæðingardegi Jónasar Tómassonar, en í ár eru 110 ár síðan hann stofnaði Tónlistarskóla Ísafjarðar hinn fyrri, sem talinn er hafa verið fyrsti tónlistarskóli á landinu. Hann var starfræktur í fjögur ár og þar voru námsgreinarnar söngur, tónfræði, orgel-leikur og kynning tónskálda. En 1918 hafði fyrri heimsstyrjöldin geisað og Spænska veikin lagt samfélagið í dvala. Það var því bið á að Jónas hæfist handa um stofnun nýja skólans, en smám saman byggðist upp gott sönglíf í kirkjunni, þar sem Jónas var organisti. Hann stofnaði Karlakórinn 1922 og Sunnukór 1934 og stóð fyrir margvíslegum viðburðum og tónleikum.

Stofnfundur Tónlistarfélagsins var haldinn 1948 að heimili Jónasar í Hafnarstræti 2, m.a. með það fyrir augum að stofna tónlistarskóla, halda uppi almennri tónlistarstarfsemi, svo sem með því að fá hingað tónlistarmenn til tónleikahalds. Jónas hafði sent Ragnari H. Ragnar bréf 1947 og óskað eftir því að hann veitti forstöðu skóla, en ráðningin dróst um ár vegna undirbúnings hjónanna.

Frumkvöðlarnir tileinkuðu starfinu alla sína krafta í þeirri trú að hægt væri að byggja upp tónlistarskóla á Isafirði. Þetta starf kostaði svita og tár í áranna rás og mun starf þeirra seint fullþakkað af þeim er við tóku. Árangurinn hefur skilað sér í uppeldi nokkurra kynslóða í gefandi og þroskandi samneyti við tónlistina.

Fjölskyldan í sumarbústaðnum inni í Skógi (Tungudal), þar sem dvalist var meira og minna allt sumarið. Það var því mikilvægt að flytja harmóníumið með, því að ekki var um útvarp eða sjónvarp að ræða. Þarna tekur Anna Ingvarsdóttir lagið, Jónas spilar á orgelið og sonur þeirra Ingvar Jónasson leikur á fiðluna. Á slíkum músíkstundum var ekki óalgengt að Fjárlögin eða Ljóð og lög væru tekin til handargagns. Síðar varð Ingvar þekktur víóluleikari, spilaði m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Malmö og hljómsveit Konunglegu óperunnar í Stokkhólmi. Einnig spilaði hann mikið með ýmsum kammerhópum og stjórnaði Sinfóníuhljómsveit áhugamanna. Sumarbústaðurinn fór undir snjóflóð á sínum tíma, en Gunnlaugur bóksali, sonur þeirra hjóna, byggði bústað á sama stað, sem hefur alla tíð gegnt mikilvægu hlutverki á sumrin í lífi fjölskyldunnar.

 

Anna og Jónas spila á píanó og orgel.

Í Tónlistarskólanum er einstaklega fallegur bókaskápur sem var í eigu Jónasar Tómassonar. Skápurinn er fullur af bókum, nótum, bæklingum og öðrum dýrgripum, sumum fágætum. Í annarri hillu eru karla- og kvennakórslög til hægri, í miðjunni kórnótur fyrir blandaðan kór og til vinstri kirkjukórsnóturnar.

 

Lítið brot af bókunum í skáp Jónasar.