Iwona Frach

4. október 2022 | Fréttir

Iwona Frach

Iwona Frach

Iwona Frach

Iwona er Krakáingur í húð og hár. Í Kraká fæddist hún, gekk menntaveginn þar, og reyndar víðar – en í Kraká slær alltaf hjarta hennar. Svipað og önnur börn sem læra tónlist í Póllandi hóf hún nám 6 ára gömul og lauk því með MA gráðu frá Tónlistarakademíunni í Kraká þar sem mastersritgerð hennar var valin sú besta í keppni allra ritgerða í Póllandi.
Iwona hefur verið virk í tónlistarlífi á Vestfjörðum. Hún hefur t.d. verið stjórnandi Sunnukórsins, meðleikari kammerkórsins og organisti í Flateyrarkirkju.

Það sést langar leiðir að Iwona er dansari, tíguleg og elegant og hún er mikill ballettaðdáandi. Sem ung stúdína dansaði hún í þjóðlagadanshópnum Slowianki, en seinna á Íslandi deildi hún reynslu sinni og stofnaði danshóp fyrir börn, sem dansaði pólska dansa á helstu þjóðahátíðum á Íslandi.
Iwona er sérfræðingur í tónfræðigreinum og þess vegna eru undir hennar vængjum hópar með eldri nemendum sem vilja uppgötva leyndardóma hljómfræðinnar, tónfræðinnar og tónlistarsögunnar.
En hún er aldeilis ekki bara tónfræðikennari, hún er frábær píanóleikari / píanókennari og píanónemendur hennar hafa verið verðlaunahafar í tónlistarkeppnum á Íslandi m.a. EPTA og Nótunni. Sonur þeirra Januszar, Mikolaj Ólafur, skaust upp á stjörnuhimininn um daginn sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands í röðinni „Klassíkin okkar“ og þá urðum við heldur betur stolt á Ísafirði. Hinir strákarnir þeirra, Maksymilian og Nikodem eru líka framúrskarandi tónlistarmenn, báðir fiðluleikarar. Allir einstaklega góðir á manninn, vandaðir og vandvirkir. „Af ávöxtunum skuluð þið þekkja þau.“

Eins og flestar konur, veit Iwona að konur geta allt. Þess vegna keppir hún við Janusz í öllu, ekki síst í íþróttum. Hún er alltaf með honum á gönguskíðum og í sundi en einnig skuggi hans á reiðhjóli. En fyrst og fremst er þetta fallegt hjónaband – alltaf saman.

Iwona með fjölskyldunni eftir tónleika fyrir fáeinum árum.

Hjónin Janusz og Iwona með pólskt kaffimeðlæti á kennarafundi í tónlistarskólanum, nánar HÉR.

 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur