Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir nýr skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar
Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir er fædd og uppalin á Ísafirði. Sem sex ára lítil hnáta hóf hún tónlistarnám í Tónlistarskóla Ísafjarðar. Eftir stúdentspróf flutti hún til Reykjavíkur og hóf þar framhaldsnám og útskrifaðist með söngkennara og kórstjórnarpróf. Eftir tuttugu ára búsetu í Reykjavík þar sem hún starfaði sem söngkennari og kórstjóri flutti hún heim til Ísafjarðar.
Hér hefur Bjarney starfað við tónlistarkennslu og stjórnað kórum lengst af við Tónlistarskóla Ísafjarðar en einnig stundaði hún framhaldsnám í söngkennslufræðum frá Complete Vocal Institude í Kaupmannahöfn. Sl.vor útskrifaðist Bjarney Ingibjörg með meistaragráðu í verkefnastjórnun, MPM, frá Háskólanum í Reykjavík.
Bjarney hefur sl.ár starfað sem verkefnastjóri hjá Háskólasetri Vestfjarða og er einnig verkefnastjóri tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið. Bjarney Ingibjörg hefur gaman af félagsstörfum og hefur m.a. starfað í stjórnum og nefndum Félags íslenskra söngvara, norrænu kórasamtökunum NORBUSANG og Félags íslenskra kórstjóra. Hún hefur brennandi áhuga á matargerð og prjónaskap en finnst best að knúsa ömmubörnin sem bráðum verða fimm.
Við óskum Bjarneyju Ingibjörgu til hamingju með nýja starfið.