Fjöldasöngur tileinkaður Siggu Ragnars 31. okt. kl. 17

29. október 2023 | 75 ára afmælið, Fréttir, Hamrar

Næsti fjöldasöngur verður helgaður minningu Sigríðar Ragnarsdóttur skólastjóra (31. október 1949 – 27. ágúst 2023), í Hömrum á afmælisdegi hennar þriðjudaginn 31. okt. kl. 17. Sungin verða lög sem gjarnan urðu fyrir valinu þegar hún settist við píanóið.
… bestu blómin gróa í brjóstum sem að geta fundið til …
.
Velkomin í Hamra. Aðgangur ókeypis.
.

Sumarkveðja

Ó, blessuð vertu sumarsól,
er sveipar gulli dal og hól
og gyllir fjöllin himinhá
og heiðarvötnin blá.
Nú fossar, lækir, unnir, ár
sér una við þitt gyllta hár.
Nú fellur heitur haddur þinn
um hvíta jökulkinn.

Þú klæðir allt í gull og glans,
þú glæðir allar vonir manns,
og hvar sem tárin kvika’ á kinn
þau kyssir geislinn þinn.
Þú fyllir dalinn fuglasöng,
nú finnast ekki dægrin löng,
og heim í sveitir sendirðu’ æ
úr suðri hlýjan blæ.

Þú fróvgar, gleður, fæðir allt
um fjöll og dali’ og klæðir allt,
og gangirðu’ undir gerist kalt,
þá grætur þig líka allt.
Ó, blessuð vertu sumarsól,
er sveipar gulli dal og hól
og gyllir fjöllin himinhá
og heiðarvötnin blá.

Ingi T. Lárusson / Páll Ólafsson

Í faðmi fjalla blárra

Í faðmi fjalla blárra,
þar freyðir aldan köld,
í sölum hamra hárra
á huldan góða völd,
sem lætur blysin blika
um bládimm klettaskörð,
er kvöldsins geislar kvika
og kyssa Ísafjörð.

Jónas Tómasson / Guðm. Guðm. skólaskáld

Kvæðið um fuglana

Snert hörpu mína, himinborna dís,
svo hlusti englar guðs í Paradís.
Við götu mína fann ég fjalarstúf
og festi á hann streng og rauðan skúf.

Úr furutré, sem fann ég út við sjó
ég fugla skar og líka’ úr smiðjumó.
Í huganum til himins oft ég svíf
og hlýt að geta sungið í þá líf.

Þeir geta sumir synt á læk og tjörn,
og sumir verða alltaf lítil börn.
En sólin gyllir sund og bláan fjörð
og sameinar með töfrum loft og jörð.

Ég heyri’ í fjarska villtan vængjaþyt.
Um varpann leikur draumsins perluglit.
Snert hörpu mína himinborna dís,
og hlustið, englar guðs í Paradís.

Atli Heimir Sveinsson / Davíð Stefánsson

Vikivaki

Sunnan yfir sæinn breiða
sumarylinn vindar leiða.
Draumalandið himinheiða
hlær og opnar skautið sitt.

Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt!

Gakk þú út í græna lundinn,
gáðu fram á bláu sundin.
Mundu, að það er stutt hver stundin,
stopult jarðneskt yndi þitt.

Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt!

Allt hið liðna er ljúft að geyma,
láta sig í vöku dreyma.
Sólskinsdögum síst má gleyma,
segðu engum manni hitt!

Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt!

Valgeir Guðjónsson / Jóhannes úr Kötlum

Vem kan segla förutan vind

Vem kan segla förutan vind
vem kan ro utan åror
vem kan skiljas från vännen sin
utan at fälla tårar?

Jag kan segla förutan vind
jag kan ro utan åror
Men ej skiljas från vännen min
utan att fälla tårar.

Þjóðlag frá Álandseyjum

Líttu sérhvert sólarlag

Sérhver draumur lifir aðeins eina nótt.
Sérhver alda rís en hnígur jafnan skjótt.
Hverju orði fylgir þögn – og þögnin hverfur allt of fljótt.

En þó að augnablikið aldrei fylli stund
skaltu eiga við það mikilvægan fund
því að tár sem þerrað burt – aldrei nær að græða grund.

Þú veist að tímans köldu fjötra enginn flýr.
Enginn frá hans löngu glímu aftur snýr.
Því skaltu fanga þessa stund – því fegurðin í henni býr.

Líttu sérhvert sólarlag,
sem þitt hinsta væri það.
Því morgni eftir orðinn dag
enginn gengur vísum að.

Bragi Valdimar Skúlason

Hver á sér fegra föðurland

Hver á sér fegra föðurland,
með fjöll og dal og bláan sand,
með norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð?
Með friðsæl býli, ljós og ljóð,
svo langt frá heimsins vígaslóð.
Geym, drottinn, okkar dýra land
er duna jarðarstríð.

Hver á sér meðal þjóða þjóð,
er þekkir hvorki sverð né blóð
en lifir sæl við ást og óð
og auð, sem friðsæld gaf?
Við heita brunna, hreinan blæ
og hátign jökla, bláan sæ,
hún uni grandvör, farsæl, fróð
og frjáls – við ysta haf.

Ó, Ísland, fagra ættarbyggð,
um eilífð sé þín gæfa tryggð,
öll grimmd frá þinni ströndu styggð
og stöðugt allt þitt ráð.
Hver dagur liti dáð á ný,
hver draumur rætist verkum í
svo verði Íslands ástkær byggð
ei öðrum þjóðum háð
Svo aldrei framar Íslands byggð
sé öðrum þjóðum háð.

Emil Thoroddsen / Hulda

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur