Skært lúðrar hljóma

16. mars 2009 | 60 ára afmælið

Lúðrasveitir á Ísafirði
Lúðrafélag Ísafjarðar var stofnað árið 1903 fyrir tilstuðlan Jóns Laxdals tónskálds og Friðbergs Stefánssonar. Lék félagið við ýmis tækifæri á Ísafirði og nágrenni til ársins 1910, oft í samstarfi við Söngfélag Ísfirðinga. Lagðist starfsemin síðan niður um tíma en árið 1921 var Lúðrafélagið endurvakið að frumkvæði Jóns Hróbjartssonar. Karl O. Runólfsson sá þá um að æfa sveitina reglulega eða til haustsins 1923 þegar Jónas Tómasson tók við og seinna Gunnar Hallgrímsson.

 

Árið 1940 var Lúðrasveit Ísafjarðar stofnuð. Helstu hvatamenn að stofnun hennar voru þeir Guðmundur Sveinsson og Gunnar Hallgrímsson. Lúðrasveitin starfaði með hléum þar til Harry Herlufsen tók við henni árið 1954. Vilberg Vilbergsson, Villi Valli, tók við sveitinni árið 1959 og starfaði hún af miklum krafti undir hans stjórn, lék m.a. á hátíðis- og tyllidögum og við hina ýmsu viðburði.

 

Árin 1969–1971 stjórnaði tékkneski tónlistarmaðurinn Otmar Bohucky lúðrasveitinni en síðan starfaði hún öðru hverju undir stjórn ýmissa tónlistarkennara við Tónlistarskóla Ísafjarðar. Má þar nefna Svein Arve Hovland, Davíð Ólafsson, Michael Arthur Jones og Gísla Magnússon. Undanfarin ár hefur Madis Mäekalle, kennari við Tónlistarskóla Ísafjarðar, stjórnað lúðrasveitinni undir nafninu Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar. Er hún skipuð nemendum skólans auk nokkurra gamalla, en síungra, félaga úr eldri lúðrasveitinni.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur