Maður með hundrað hálsbindi

16. mars 2009 | 60 ára afmælið

„Þeir gengu niður á torgið og þar blasti við svo einkennileg sýn að drenginn rak í rogastans. Það var búið að taka út stóra gluggann yfir bókabúðinni og setja talíu á þakbrúnina. Í henni dinglaði dökkbrúnt píanó sem var svo stórt að það komst greinilega ekki inn um neinar dyr. Í glugganum var tónlistarkennarinn að fylgjast með, og var búinn að skipta um föt. Nú var hann í ljósgráum jakkafötum og kominn með annað marglitt hálsbindi.

Tveir menn á gangstéttinni hífðu píanóið upp og aðrir tveir voru tilbúnir að taka á móti því uppi. Drengurinn gat ekki skilið hvernig þeir færu að því að ná píanóinu inn, og beið spenntur. Þegar hljóðfærið var komið upp á móts við gluggann, gat annar maðurinn teygt sig út og snúið píanóinu þannig að hljómborðið vissi að honum. Svo tóku þeir um neðsta hlutann og toguðu hann til sín. Um leið var slakað ofurlítið á talíunni, og eftir nokkurt bax hvíldi hljóðfærið á bakinu í gluggakistunni. Þá hlupu mennirnir á gangstéttinni upp stigann, og fyrr en varði var þetta stóra píanó horfið inn í húsið.

 

Drengurinn kyngdi munnvatni og sagði upphátt við sjálfan sig: Ég ætla að læra að spila á píanó. Doddi hváði. Honum var drengurinn búinn að gleyma. Ætlar þú að læra að spila á píanó? Til hvers? Það er miklu meira gaman að spila billjard. Drengurinn heyrði þetta varla. Hann hljóp á stað heim að skólanum til að sækja hjólið sitt, og sinnti því engu þótt Doddi kallaði á eftir honum. Hann spanaði upp eyrina og komst meira að segja upp bæjarbrekkuna án þess að þurfa að leiða hjólið. Þegar hann var kominn heim, fór hann rakleitt inn á skrifstofuna til pabba síns. Mig langar að læra á píanó, sagði hann andstuttur. Heldurðu að það sé nokkur leið til þess að við getum keypt píanó?

Faðir hans leit undrandi upp frá verki sínu. Drengurinn útskýrði eins vel og hann gat, hvað fyrir hann hafði borið, sagði honum frá skólasetningunni, tónlistarkennaranum og píanóinu sem var híft inn um gluggann. Það þarf nú kannski meira til að læra á píanó en að horfa á það híft inn um glugga, sagði faðir hans kíminn. En við skulum sjá til. Kannski verða einhver ráð. Þetta sagði hann alltaf. Og drengnum létti.“
Úr bókinni Í flæðarmálinu eftir Njörð P. Njarðvík, bls. 73-75. (Rv. 1988)

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is