Jólatorgsölur, flóamarkaðir, kabarettsýningar …

16. mars 2009 | 60 ára afmælið

Styrktarsjóður húsbyggingar Tónlistarskóla Ísafjarðar
Stofnun Styrktarsjóðs húsbyggingar Tónlistarskóla Ísafjarðar má rekja til skólaslitaræðu skólastjóra Tónlistarskólans, Ragnars H Ragnar, vorið 1982. Þá skoraði hann á ísfirskar konur að taka höndum saman og láta húsnæðismál Tónlistarskólans til sín taka. Að athöfninni lokinni hittust nokkrar konur sem ákváðu að verða við áskorun Ragnars og hófu þær undirbúning að stofnun félags sem hefði það að markmiði að safna fé til húsbyggingar fyrir Tónlistarskóla Ísafjarðar.

 

Félagið var formlega stofnað á fundi 21. nóvember í Menntaskólanum á Ísafirði. Strax í upphafi var mikill hugur í fólki og fjáröflunarleiðir margvíslegar. Má þar fyrst nefna jólatorgsöluna sem mun hafa verið sú fyrsta sem haldin var á landinu og er enn aðalfjáröflunarleið félagsins. Þá má nefna jólakortasölu, kabarettsýningar, flóamarkaði, blómasölu, bolluvandasölu og margt fleira. Hefur Styrktarsjóðurinn alla tíð notið mikillar velvildar bæjarbúa, jafnt einstaklinga sem fyrirtækja.

 

Eftir að Tónlistarskólinn fékk húsnæði í Húsmæðraskólanum og eftir að hafa styrkt byggingu tónleikasalar, breyttust áherslur Styrktarsjóðsins. Nafni hans var breytt í Styrktarsjóður Tónlistarskóla Ísafjarðar og ákveðið að vinna framvegis að fjáröflun til styrktar starfsemi skólans. Hafa félagsmenn haldið ótrauðir áfram því góða starfi sem verið hefur frá upphafi og reynst Tónlistarskólanum ómetanlegur bakhjarl.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is