fá hingað tónlistarmenn, innlenda sem erlenda…

16. mars 2009 | 60 ára afmælið

Tónlistarfélag Ísafjarðar – stofnun og starfsemi
Á fyrri hluta 20. aldar var fjörugt og öflugt sönglíf á Ísafirði og söngskemmtanir algengar með kórum og einsöngvurum. Reglubundin tónlistarkennsla var hins vegar ekki starfrækt ef frá er talinn Tónlistarskóli Jónasar Tómassonar sem starfaði árin 1911–1918. Þar fyrir utan kenndu nokkrir einstaklingar hljóðfæraleik í einkatímum.

 

Árið 1948 hófu nokkrir áhugamenn undirbúning að stofnun félagsskapar til að efla tónlistarkennslu og tónleikahald í bænum. Forgöngu um málið höfðu þeir Jónas Tómasson, Jóhann Gunnar Ólafsson bæjarfógeti og Halldór Halldórsson bankastjóri. Tónlistarfélag Ísafjarðar var síðan stofnað 20. maí 1948. Það var í fyrstu með „akademíu-sniði“, þ.e. lokaður félagsskapur með aðeins 12 félagsmönnum sem lýstu sig viljuga til að vinna að framgangi stefnuskrár félagsins. Helsta markmið hennar var að koma á „sem fjölbreyttastri og fullkomnastri tónlistarkennslu á Ísafirði“.

 

Fyrir tilstuðlan Tónlistarfélagsins flutti Ragnar Hjálmarsson Ragnar, þaulvanur píanókennari og söngstjóri, til Ísafjarðar þar sem honum var falið að stofna og stjórna Tónlistarskóla Ísafjarðar. Þó svo að í fyrstu skorti húsnæði, hljóðfæri og flest annað sem til kennslu þarf, tókst Ragnari á nokkrum árum, með dugnaði og áræði, að gera skólann að stórri og sterkri menntastofnun sem vakti athygli á landsvísu.

 

Annað af meginmarkmiðum Tónlistarfélagsins var að auka fjölbreytni í tónleikahaldi og „fá hingað tónlistarmenn, innlenda sem erlenda, hljómsveitir og kóra til að halda hér á Ísafirði tónleika fyrir félagana, styrktarfélaga og almenning …“. Lögð var sérstök áhersla á að bjóða upp á einleiks- og kammertónleika hljóðfæraleikara sem ekki hafði verið mikið um áður.

 

Tónleikahald Tónlistarfélagsins hefur orðið umfangsmeira og fjölbreyttara með ári hverju og nú eru fastir áskriftartónleikar fjórum sinnum á ári. Minningartónleikar um hjónin Ragnar H. Ragnar og Sigríði eru á hverju hausti auk þess sem félagið kemur að fjölda annarra tónleika. Síðastliðin tvö sumur hefur félagið staðið fyrir röð sumartónleika með áherslu á þátttöku ungs listafólks.

 

Ótal innlendir og erlendir listamenn hafa lagt leið sína til Ísafjarðar og eftirsóknarvert er að halda þar tónleika. Þykir einstaklega gott að leika fyrir ísfirska áheyrendur og sömuleiðis þykir hljómburðurinn í tónleikasalnum Hömrum sérlega góður.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur