Alþjóðleg námskeið og framsækin tónlistarhátíð

16. mars 2009 | 60 ára afmælið

Námskeiðahald á vegum Tónlistarskóla Ísafjarðar
Tónlistarskóli Ísafjarðar hefur jafnan leitast við að auka fjölbreytni skólastarfsins með námskeiðum af ýmsu tagi. Söngkennari var ekki fastráðinn við skólann fyrr en haustið 1985, en fram að þeim tíma voru oft haldin fjölmenn söngnámskeið, gjarnan í samvinnu við kórana í bænum.

 

Á síðari árum hefur verið lögð áhersla á að halda námskeið í djass og spuna. Bandaríski rafgítarleikarinn Paul Weeden hélt nokkrum sinnum afar fjölmenn námskeið þar sem margir fetuðu sín fyrstu spor í djassleik eða -söng. Skólinn hefur haldið nokkur námskeið í „tónlistarmiðlun“ þar sem spuni er í aðalhlutverki og síðustu árin hefur Listaháskóli Íslands staðið fyrir slíkum námskeiðum hér á Ísafirði. Oft hafa tónlistarmenn sem eru á ferðinni haldið námskeið af ýmsu tagi í skólanum, m.a. ungverski píanóleikarinn Ilona Lucz sem tvisvar hefur haldið viðamikil námskeið fyrir kennara og nemendur.

 

Þá hefur skólinn staðið fyrir og verið aðili að mörgum alþjóðlegum tónlistarnámskeiðum. Hið fyrsta var Sumarsólstöðunámskeiðið sumarið 1991 þar sem hollenskir tónlistarmennirnir Willem Brons píanóleikari og Joep Terwey fagottleikari voru gestakennarar.

 

Í júní 1995 var þýski píanóleikarinn Ludwig Hoffmann kennari á master-class námskeiði fyrir píanóleikara. Sumarið 2001 héldu Erling Blöndal Bengtsson sellóleikari og Philip Jenkins píanóleikari námskeið á vegum skólans.

 

Tónlistarhátíðin og sumarnámskeiðin Við Djúpið hafa verið árlegir viðburðir í tónlistarlífinu frá árinu 2003, en hátíðin er haldin í samvinnu nokkurra aðila, m.a. Tónlistarskóla Ísafjarðar, sem hefur verið aðalvettvangur hátíðarinnar. Með metnaðarfullri dagskrá hefur hátíðin skipað sér í sess framsæknustu tónlistarhátíða landsins. Meðal þeirra listamanna sem fram hafa komið og kennt má nefna Erling Blöndal Bengtsson sellóleikara, Vovka Ashkenazy píanóleikara, Sigrúnu Hjálmtýsdóttur söngkonu, Pekka Kuusisto fiðuleikara, Håkon Austbø píanóleikara, Evan Ziporyn tónskáld og klarinettuleikara, Sigurbjörn Bernharðsson fiðluleikara, djasspíanistana Davíð Þór Jónsson og Agnar Má Magnússon og marga fleiri. Einnig hafa ýmsir tónlistarhópar verið á dagskrá hátíðarinnar svo sem ATON, Flís og Pacifica kvartettinn.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is