Tónleikar október 2019 – mars 2020

11. október 2019 | Tónlistarfélagið

1. Áskriftartónleikar Tónlistarfélags Ísafjarðar
“Talið í fyrir tvo” Laugardagurinn 12. október 2019 17:00 í Hömrum

Dúettformið er einfalt, stílhreint en á sama tíma mjög krefjandi. Íslenska orðið yfir píanó, slagharpa er svo lýsandi hlutverki píanistans; takturinn sleginn á sama tíma og blússandi yfirferð hljómaganganna. Ofan á píanóleikinn fá laglínuhljóðfærin að svífa með, stundum í hlutverki laglínu og aðra stundina í kontralínum og milliröddum. Tónleikarinir eru frumraun dúettsins sem leitast við að yfirgefa hefðbundin form þó alltaf með lýrískri nálgun.

Flytjendur eru: Ingi Bjarni Skúlason píanóleikari og Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir fiðlu- og básúnuleikari.

Miðaverð er 3000 kr., en 2000 kr. fyrir eldri borgara og öryrkja.
Aðgangur ókeypis er fyrir skólafólk 20 ára og yngra.

Miðar á tónleikana verða seldir við inngang.

Veturnætur
Árstíðirnar fjórar – Vivaldi Miðvikudagurinn 23. október 2019 20:00 í Hömrum

Maksymilian Haraldur Frach fiðluleikari flytur hið fagra verk Árstíðirnar fjórar eftir Vivaldi ásamt strengjasveit.
Strengjasveitina skipa: Joanna Bartkiewicz, fiðla, Nikodem Frach fiðla, Magdalena Nawojska fiðla, Aleksandra Panasiuk fiðla, Janusz Frach víóla, Klaudia Borowiec selló.
Ljóðaupplestur: Ásdís Halla Guðmundsdóttir og Þuríður Kristín Þorsteinsdóttir.
Vivaldi var afkastamikið tónskáld en Árstíðirnar fjórar eru hans þekktasta og vinsælasta verk. Vivaldi lét hverjum konserti fylgja Sonnettur , að öllum líkindum eftir hann sjálfan, og nær að fanga innihald þeirra snilldarlega í tónum. Þar má heyra fuglasöng vorsins og sekkjapípudans hjarðsveinanna að vori. Sumarhitinn verður næstum áþreifanlegur í öðrum konsertinum, og undir flugnasuði er undirliggjandi ógn þrumuveðursins, sem brýst út í lokaþætti konsertsins. Góðri uppskeru er fagnað að hausti með hátíðahöldum, við taka spennandi veiðiferðir og veturinn kemur með tilheyrandi kulda og glamrandi tönnum og þá er gott að hlýja sér við eldinn og hlusta á vindgnauðinn úti.

Aðgangur er ókeypis en tekið á móti frjálsum framlögum í ferðasjóð.

Veturnætur
Við nyrstu voga Sunnudagurinn 27. Október 2019 20:00 í Hömrum

Árni Heiðar Karlsson og Gissur Páll Gissurarson flytja íslensk sönglög af nýjum geisladiski,

Við nyrstu voga. Samstarf Gissurar Páls Gissurarsonar og Árna Heiðars Karlssonar spannar rúman áratug og hefur það verið afar farsælt. Þeir hafa nú tekið upp brot af því besta af því samstarfi sem þeir hafa átt í gegnum árin sem kemur út á geisladisknum Við nyrstu voga en á honum er að finna íslensk sönglög í túlkun þeirra.

Miðaverð er 3000 kr., en 2000 kr. fyrir eldri borgara, öryrkja og skólafólk 20 ára og yngra.

Miðar á tónleikana verða seldir við inngang.

Tónlistarfélag Ísafjarðar – 2. áskriftartónleikar
Heimstenór og tónlistarsení

Föstudagurinn 1. nóvember 2019 20:00 í Hömrum

Sveinn Dúa Hjörleifsson og Bjarni Frímann Bjarnason flytja á þessum tónleikum stórvirki íslenskra sönglaga í bland við ástúðlegar þýskar tónbókmenntir.

Miðaverð er 3000 kr., en 2000 kr. fyrir eldri borgara og öryrkja.
Aðgangur ókeypis er fyrir skólafólk 20 ára og yngra.

Miðar á tónleikana verða seldir við inngang.

Tónlistarfélag Ísafjarðar
Andrés Þór Paradox kvartett
Fimmtudagurinn 14. nóvember 2019 20:00 í Hömrum

Kvartett gítarleikarans Andrésar Þórs leikur lög af glænýjum diski hans, Paradox sem var hljóðritaður á síðasta ári í Brooklyn í New York. Á disknum, sem er sá sjötti í röðinni er að finna níu frumsamda jazzópusa sem sækja áhrif sín úr ýmsum áttum, allt frá þjóðlagatónlist til skammtafræði. Ásamt Andrési skipa kvartettinn píanóleikarinn Agnar Már Magnússon, kontrabassaleikarinn Þorgrímur Jónsson og trommuleikarinn Scott McLemore. Þeir félagar hafa starfað lengi saman við ýmis ólík verkefni en þessi tiltekni kvartett kom fyrst fram undir nafni hljómsveitarstjórans árið 2011 og í kjölfarið hljóðrituðu þeir hljómdiskinn Mónókróm sem hlaut afar góðar viðtökur.

Aðgangur er ókeypis en tekið á móti frjálsum framlögum.

Tónlistarfélag Ísafjarðar – 3. áskriftartónleikar
Tríótónar úr austri og vestri

Fimmtudagurinn 20. febrúar 2020 20:00 í Hömrum

Tríó Sírajón var stofnað á vordögum árið 2010 og hefur haldið fjölmarga tónleika víðsvegar um landið sem og erlendis. Tríóið efnir gjarnan til samstarfs með öðru tónlistarfólki og hefur pantað verk frá íslenskum tónskáldum og frumflutt. Nafn tríósins vekur jafnan forvitni en það er sótt til ættföður Reykjahlíðarættarinnar í Mývatnssveit, Síra Jóns Þorsteinssonar, sem er forfaðir hljóðfæraleikaranna þriggja. Tríóið skipa: Laufey Sigurðardóttir fiðluleikari, Einar Jóhannesson klarinettleikari og Anna Áslaug Ragnarsdóttir píanóleikari. Gestur: Sigrún Pálmadóttir sópran.

Miðaverð er 3000 kr., en 2000 kr. fyrir eldri borgara og öryrkja.
Aðgangur ókeypis er fyrir skólafólk 20 ára og yngra.

Miðar á tónleikana verða seldir við inngang.

Tónlistarfélag Ísafjarðar – 4. áskriftartónleikar
Söngkonur snúa heim þann 21. mars 2020 í Hömrum kl. 17:00

Söngkonurnar Salóme Katrín Magnúsdóttir og Sigríður Salvarsdóttir voru báðar nemendur í

Tónlistarskólanum á Ísafirði fyrir ekki svo löngu. Þær héldu svo í sitthvora áttina. Sigríður fór í klassískan söng í Listaháskóla Íslands og kláraði þar vorið 2019 og Salóme fór í rythmískan söng í FÍH og kláraði söngnámið sama vor.

Nú koma þær saman í heimahagann til að sýna afrakstur námsins og mega áhorfendur búast við skemmtilegri blöndu af djassi, ljóðasöng og söngleikjatónlist.

Miðaverð er 3000 kr., en 2000 kr. fyrir eldri borgara og öryrkja.
Aðgangur ókeypis er fyrir skólafólk 20 ára og yngra.

Miðar á tónleikana verða seldir við inngang.