Hátíðastemning og fagnaðarfundir í Hömrum

1. maí 2022 | Fréttir, Hamrar

Það var sannkölluð hátíðastemning og fagnaðarfundir í Hömrum í dag, þegar bræðurnir Maksymilian Haraldur víólu- og fiðluleikari, Mikolaj Ólafur píanóleikari og Nikodem Júlíus Frach fiðluleikari héldu tónleika ásamt kennara Nikodems, Piotr Tarcholik, en hann er konsertmeistari Sinfóníuhlómsveitar pólska útvarpsins og jafnframt einn eftirsóttasti fiðlukennari Póllands, ef ekki sá eftirsóttasti. Við vorum auðvitað að springa úr stolti yfir því að frábæru strákarnir okkar skyldu hafa verið aldir upp hér í skólanum.

Mikolaj spilaði Fantasíu op. 28 eftir Skrjabín, sem er ekkert lamb að leika sér við, hreinn fingurbrjótur, en hann leysti það af fádæma öryggi og listfengi.

Piotr Tarcholik spilaði svo með honum fjögur rómantísk stykki (Romantische Stücke) eftir Dvorák. Frá fyrsta tóni var ljóst að hér fór afburða fiðluleikari, með safaríkan, fallegan tón og tækni sem lætur tónlistarmann líta út fyrir að hann sé að gera eitthvað auðvelt, jafnvel drekka vatn, tandurhrein tvígrip og átakalausar runur á öllu tónsviðinu, fjölbreytt túlkun, ýmist dreymandi eða heit.

Tarcholik er orðinn yfirmaður strengjadeildar í Tónlistarháskólanum í Kraká og leggur mikla áherslu á grunntækni. Nikodem sagðist hafa tekið heilt próf um daginn í skölum og æfingum. Það er e.t.v. ekki það skemmtilegasta sem tónlistarmaður gerir, en það er nú svo, að tónlistarmaður getur ekki fyllilega hvílt í tónlistinni og notið tónlistar gáfna sinna nema að baki búi örugg tækni.

Eftir hlé spiluðu Tarcholik, Nikodem og Maksymilian terzett í fjórum köflum eftir Dvorák í aðdáunarverðri samstillingu og andagift.

Það er mikill heiður og ánægja fyrir okkur þegar fyrrverandi nemendur heimsækja okkur til að sýna af örlæti hvað þeir eru að fást við og sannarlega verða þessir strákar ævinlega aufúsugestir á Ísafirði. Ekki nóg með að þeir séu topp tónlistarmenn, heldur hafa þeir einstaklega frjálslega og heillandi framkomu og það var augljóst eftir tónleikana að gestirnir voru þakklátir og áttu í þeim hvert bein, þyrsti í að frétta af þeim og líka að heyra þá spauga, gera grín að sambúð sinni o.s.frv. Ónefnd kona sem sótt hefur tónleika um áratuga bil, sagði: Svo eru þeir líka svo yndislega fallegir.

Bestu óskir fylgja þeim áfram á þessari snúnu en gjöfulu braut. Hjartans þakkir.

-bp

Mikolaj Ólafur við flygilinn

Piotr, Nikodem Júlíus og Maksymilian Haraldur

Bergþór, Nikodem Júlíus, Piotr, Mikolaj Ólafur og Maksymilian Haraldur

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is