Vorþytur lúðrasveitanna og Mugison í Ísafjarðarkirkju

28. apríl 2011 | Fréttir

Lúðrasveitir Tónlistarskóla Ísafjarðar halda sína árlegu vortónleika í Ísafjarðarkirkju nk. miðvikudag 4.maí kl. 20. Tónleikarnir bera yfirskriftina Vorþytur enda má segja að sveitirnar séu að blása vorið í bæinn.
Lúðrasveitir skólans eru nú þrjár: Skólalúðrasveitin, sem skipuð er grunnskólanemum sem jafnframt stunda nám við skólann, Miðsveitin er minni sveit,skipuð lengra komnum nemendum og loks Lúðrasveit  T.Í.  en hana skipa nemendur ásamt reyndum  tónlistarmönnum sem eru ómetanlegur stuðningur við sveitina auk þess sem þeir skreyta tónlistarflutninginn með listrænum tilbrigðum.
Sérstakur gestur tónleikanna að þessu sinni er tónlistarmaðurinn Mugison og leikur Lúðrasveit T.Í.  tvö laga hans með honum í lok tónleikanna. Stjórnandinn, Madis Mäekalle , útsetti þessi lög sérstaklega til flutnings á hátíðinni Aldrei fór ég suður um páskana og nú á að endurtaka þau í kirkjunni. Annars er efnisskráin er í léttari kantinum og mjög fjölbreytt, Radetzky-mars, lög eftir Bobby Mcferrin, A-H-A sveitina, Leonard Cohen og marga fleiri.
Aðgangseyrir að tónleikunum á miðvikudag er 1000 krónur fyrir fullorðna og 500 krónur fyrir börn 12 ára og yngri og rennur hann til kaupa á nýjum nótnastatífum fyrir sveitina.
 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is