Vorið er sannarlega uppskeruhátíð tónlistarnema og sem fyrr stendur Tónlistarskóli Ísafjarðar fyrir mörgum nemendatóleikum í maí. Það eru lúðrasveitir skólans sem hefja vortónleikaröð skólans með sínum árlegu tónleikum í Ísafjarðarkirkju. Tónleikarnir verða miðvikudagskvöldið 7. maí kl. 20:00 og eru haldnir undir yfirskriftinni Vorþytur og má kannski segja að þeir blási vorið í bæinn. Á tónleikunum koma fram þrjár lúðrasveitir: Skólalúðrasveit T.Í. sem skipuð er nemendum á grunnskólaaldri sem stunda nám við skólann, Miðsveitin sem er skipuð lengra komnum nemendum og Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar, skipuð blásurum á ýmsum aldri sem margir hafa mikla reynslu í farteskinu.
Lúðrasveitirnar skipa veglegan sess í starfi Tónlistarskólans og taka þær virkan þátt í atburðum og uppákomum í Ísafjarðarbæ. Það er dýrmætt að eiga Lúðrasveit til að leiða 1. maí gönguna, spila á 17. júní, við tendrun jólaljósanna og marga aðra viðburði. Þess má einnig geta að Lúðrasveit TÍ hefur oft komið fram á tónleikum tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður, nú síðast með ísfirska söngvaranum Helga Björnssyni.
Dagskráin á tónleikunum er í léttari kantinum og afar fjölbreytt, þekkt erlend dægurlög e. Kate Perry, Christina Aquilera, Elton John, Leonard Cohen o. fl. en einnig eftir valsakónginn Johan Strauss.
Það er hinn kraftmikli Eistlendingur Madis Mäekalle sem hefur undirbúið þessa tónleika og stjórnar öllum sveitunum, en hann hefur einnig útsett og aðlagað flest lögin.
Tónleikarnir verða sem áður sagði miðvikudaginn 7. maí í Ísafjarðarkrikju og hefjast kl. 20:00. Aðgangseyrir að tónleikunum kr. 1.000.- en kr. 500.- fyrir 12 ára og yngri og rennur hann í sjóð lúðrasveitanna.