Vetur konungur kvaddur með tónlistaruppákomum!

20. apríl 2010 | Fréttir

Tónlistarnemar kveðja veturinn með tveimur tónlistaruppákomum á síðasta vetrardag, miðvikudaginn 21.apríl.

Í hádeginu kl. 12:30 verða stuttir hádegistónleikar strengjanemenda í anddyri´Grunnskólans á Ísafirði í umsjón Janusz Frach strengjakennara. Þar koma fram nokkrir af yngri fiðlunemendunum og leika á hljóðfærin sín. Iwona Kutyla annast undirleik  á píanó.

Síðar um daginn, kl. 14:00 heimsækir Barnakór Tónlistarskóla Ísfjarðar Fjórðungssjúkrahúsið og syngur fyrir vistmenn og starfsfólk nokkur sumarleg lög. Nokkrir kórfélagar munu einnig leika á hljóðfæri. Kórstjóri barnakórsins er Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir og Hulda Bragadóttir leikur með á píanó.

Myndin var tekin af barnakórnum á hádegistónleikum í grunnskólanum í fyrravetur.