Vegleg bókagjöf

16. janúar 2013 | Fréttir

Nýlega barst Tónlistarskóla Ísafjarðar vegleg nótnabókagjöf frá Erling Sörensen, en hann kenndi flautuleik við skólann um árabil meðfram starfi sínu sem símstöðvarstjóri hér á Ísafirði. Um er að ræða um 160 nótnabækur, fyrst og fremst nótur fyrir þverflautu en einnig nokkrar blokkflautu- og  fiðlubækur. Nótnasafnið er einstaklega fjölbreytt, vandað og vel meðfarið. Segja má að í safninu megi finna allt litróf flautubókmenntanna frá barokktímanum til 20.aldarinnar, einleiksverk fyrir flautu, verk fyrir flautu og píanó, verk fyrir 2-4 flautur, flautukonserta, íslensk verk og svo mætti áfram telja. Þá er í safninu mikið úrval kennsluefnis, æfingar og flautuskólar fyrir bæði byrjendur og lengra komna nemendur, Þessi nótnagjöf á örugglega eftir að efla flautukennslu við skólann og óvíst að margir tónlistarskólar í landinu eigi svo fallegt og gott safn flautubóka. 

 

Skólinn kann Erling miklar þakkir fyrir þessa veglegu og fallegu gjöf og fyrir frábær og óeigingjörn störf hans og velvild í þágu skólans alla tíð.

 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is