Tríó Vadims Fyodorovs heldur tónleika í Hömrum, Ísafirði, laugardaginn 14.nóvember kl. 17:00. Þar mun tríóið leika samsafn af lögum sem það hefur haft á efnisskrá sinni gegnum tíðina, m.a. franska musettutónlist, swing-tónlist, argentínska tangóa og rússnesk þjóðlög. Félagarnir í tríóinu hafa sjálfir útsett tónlistina, en harmónikan er jafnan í forgrunni. Flest lögin má einnig heyra á hljómdiski sem tríóið gaf út sl.vor og ber heitið Papillons noirs (Svört fiðrildi). Tríó Vadims Fyodorovs er skipað þremur tónlistarmönnum, Vadim Fyodorov harmónikuleikara , Gunnari Hilmarssyni gítarleikara og Leifi Gunnarssyni sem leikur á kontrabassa.
Vadim er fæddur í Pétursborg í Rússlandi árið 1969. Hann var aðeins 6 ára þegar hann byrjaði að læra á harmoniku og stundaði framhaldsnám í Pétursborg og síðan í Hannover í Þýskalandi. Vadim hefur þrisvar unnið til verðlauna í alþjóðlegum harmoníkukeppnum. Hann hefur verið búsettur í nær áratug á Íslandi, þar af mörg ár á Ísafirði, og er í tvímælalaust einn af fremstu starfandi harmonikuleikurum á Íslandi. Gunnar og Leifur hafa báðir lokið námi frá Tónlistarskóla FÍH og hafa komið víða við á tónlistarsviðinu þrátt fyrir stuttan feril.