Útskriftartónleikar Helgu Margrétar í LHÍ

17. apríl 2013 | Fréttir

Föstudaginn 19. apríl kl. 18:00 heldur Helga Margrét Marzellíusardóttir útskriftartónleika sína í Neskirkju en hún útskrifast með B.Mus gráðu í söng frá Listaháskóla Íslands nú í vor.

Helga Margrét er borinn og barnfæddur Ísfirðingur. Hún hóf tónlistarnám við Tónlistarskóla Ísafjarðar ung að aldri, fyrst fiðlu, síðan píanó og loks söng auk þess sem hún tók virkan þátt í kórastarfi skólans. Aðalkennari hennar á píanó var Sigríður Ragnarsdóttir en Ingunn Ósk Sturludóttir kenndi henni söng. Helga Margrét lauk miðprófi á píanó vorið 2004 og framhaldsprófi í söng vorið 2009 og hélt þá jafnframt opinbera tónleika.  Þá fór hún til framhaldsnáms við Listaháskóla Íslands þar sem aðalnámsgrein hennar hefur verið söngur undir leiðsögn Elísabetar Erlingsdóttur. Einnig hefur hún lagt sérstaka áherslu á nám í kórstjórn og þar hefur hún m.a. notið leiðsagnar Gunnsteins Ólafssonar. Helga Margrét hefur viða komið fram sem einsöngvari á undanförnum árum, en líka stjórnað ýmsum kórum, m.a. barnakórum, Hinsegin kórnum og Kór Verslunarskóla Íslands.

Á efnisskrá tónleikanna á föstudagskvöld er meðal annars að finna verk eftir íslensku tónskáldin Egil Guðmundsson, Tryggva M. Baldvinsson, Gunnstein Ólafsson og Hjálmar H. Ragnarsson. Einnig flytur Helga verk eftir Grieg, Sibelius, Dvorak, Strauss, Puccini og fleiri. Lokaverk tónleikanna er Hear my Prayer eftir Felix Mendelssohn, verkið er fyrir sópransöngkonu og blandaðan kór. Flytjendur eru auk Helgu Margrétar: Háskólakórinn og Sigurður Helgi Oddsson á píanó, stjórnandi er Gunnsteinn Ólafsson.

Píanóleikari á tónleikunum er Selma Guðmundsdóttir (sem reyndar er einnig fyrrum nemandi Tónlistarskóla Ísafjarðar!)

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Tónlistarskóli Ísafjarðar er stoltur af þessum nemanda sínum og þeim árangri sem hún hefur náð og óskar henni innilega til hamingju með áfangann.