Ungverskur píanóleikari heldur tónleika og námskeið

8. október 2009 | Fréttir

Dagana 18.-21.október mun ungverski píanóleikarinn László Baranyay halda píanónámskeið í Tónlistarskóla Ísafjarðar. Kennslan mun fara fram í einkatímum og hóptímum eftir því sem best verður við komið og er fyrst og fremst ætlað píanókennurum og nemendum í mið- og framhaldsnámi en aðrir komast að ef tími er til. Þá heldur hann tónleika í Hömrum sunnudagskvöldið 18.október kl. 20:00.

 

László Baranyay er afar þekktur píanóleikari og kennari. Hann hefur unnið til verðlauna í fjölmörgum tónlistarkeppnum og kennir við hinn þekkta Franz Liszt tónlistarháskóla í Búdapest. Hann hóf píanónám 9 ára að aldri og tók lokapróf árið 1969, þá nemandi Imre Ungar. Á árunum 1969-1972 stundaði hann framhaldsnám við Tsjaíkovský-tónlistarháskólann í Moskvu og naut þar einkum leiðsagnar Stanislav Neuhaus. Hann sótti einnig fræg master-classnámskeið Geza Anda í Sviss. Baranyay hefur haldið fjölda tónleika í heimalandi sínu og í flestum löndum Evrópu en einnig Bandaríkjunum, Indlandi, Japan og víðar. Þá hefur hann ótal sinnum komið fram í útvarpi og sjónvarpi.

Verkefnaval (repertoire) Baranyays er afar fjölbreytt, barokktónlist til nútímans, en hann hefur einnig lagt mikla alúð við að flytja og kynna nýja ungverska tónlist og mörg ungversk tónskáld hafa samið verk fyrir hann sérstaklega.  

Baranyay nýtur mikils álits sem kennari, hann starfar sem prófessor við Tónlistarháskólann í Búdapest, og heldur reglulega námskeið um allan heim (Ítalíu, Grikklandi, Póllandi, Frakklandi, Slóveníu, Japan og víðar). Nemendur hans hafa hlotið margar viðurkenningar og verðlaun í alþjóðlegum píanókeppnum. Árið 1992 voru honum veitt „Franz Liszt“ verðlaunin fyrir afrek hans á tónlistarsviðinu, en það er æðsta viðurkenning sem ungverska ríkið veitir listamönnum sínum.

Lászlo Baranyay kemur til Ísafjarðar fyrir milligöngu Zsuzsönnu Budai píanóleikara, sem kenndi við Tónlistarskóla Ísafjarðar um nokkurra ára skeið en býr nú í Borgarnesi. Tónlistarskólinn nýtur einnig ómetanlegrar aðstoðar Beötu Joó við móttöku hans.

Nánar má lesa um Baranyay á heimasíðu hans http://www.baranyay.hu/index_e.asp

og á youtube má heyra nokkur dæmi um píanóleik hans s.s. http://www.youtube.com/watch?v=q-VDBEBhNJ4  (Chopin) og http://www.youtube.com/watch?v=vQUqqlLbF6c (Dohnanyi píanókonsert)
 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur