Undurfagrir ljóðaflokkar í Hömrum á sunnudag

18. maí 2012 | Fréttir

Næstu tónleikar Tónlistarfélags Ísafjarðar verða nk. sunnudag, 20.maí kl. 15:00. Þar flytja þau Hallveig Rúnarsdóttir sópran og Gerrit Schuil píanóleikari tvo undurfagra ljóðaflokka, Stúlkan á heiðinni (Haugtussa) eftir Edvard Grieg og Sumarnætur (Les nuits d´été) eftir Hector Berlioz.   Tónleikarnir eru 3. áskriftartónleikar Tónlistarfélags Ísafjarðar á þessu starfsári og áskriftarkort gilda en einnig eru seldir miðar við innganginn á kr. 2.000, 1.000 fyrir eldri borgara og nemendur.

Hallveig og Gerrit eru bæði vel þekkt fyrir flutning sinn á ljóðasöngvum. Hallveig hefur haldið fjölda ljóðatónleika hér á landi og erlendis og hvarvetna vakið mikla athygli fyrir frábæran flutning og túlkun. Gerrit, sem er einn af okkar helstu ljóðameðleikurum, hlaut í fyrra Íslensku tónlistarverðlaunin ásamt Ágústi Ólafssyni bassa fyrir futning þeirra á ljóðaflokkum Schuberts.

Þessa dagana eru þau á tónleikaferðalagi um landið með tilstyrk frá Kraumi-Tónlistarsjóði og frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.