Tvenn verðlaun á NÓTUNNI!

15. apríl 2013 | Fréttir

Segja má að Tónlistarskóli Ísafjarðar hafi verið sópað til sín verðlaununum á NÓTUNNI, uppskeruhátíð íslenskra tónlistarskóla, en Lokahátíð Nótunnar var haldin í Eldborgarsal Hörpu í gær, sunnudaginn 14.apríl. Bæði atriðin, sem fóru héðan frá skólanum, Skólakórinn og Hljómsveit píanónemenda,  hlutu verðlaun, en alls voru 11 verðlaun veitt á hátíðinni. Veitt voru þrenn verðlaun í hverju námsstigi, grunn-, mið- og framhaldsstigi, 1 verðlaun fyrir besta atriðið á hátíðinni og loks sérstök ÍSMÚS-verðlaun sem Tónlistarsafn Íslands veitti fyrir atriði sérstaklega tengt íslenskum tónlistararfi. Sérstök valnefnd hefur það hlutverk að velja níu framúrskarandi atriði af þessum tvennum tónleikum og hreppa þau verðlaunagrip Nótunnar 2013.  Valnefndina skipa að þessu sinni Arna Kristín Einarsdóttir, tónleikastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Högni Egilsson, tónlistarmaður og Peter Máté, píanóleikari.

Skemmst er fá því að segja að Skólakórinn hlaut verðlaun fyrir samleik/samsöng í miðstigi og Hljómsveit píanónemenda Beötu Joó hlaut ÍSMÚS-verðlaunin. Þessi árangur ungu Ísfirðinganna vakti gífurlega athygli á þessum stærsta viðburði íslenskra tónlistarskóla, en þarna voru viðstaddir allir helstu forkólfar tónlistarmála í landinu með mennta- og menningarmálaráðherra í fararbroddi. Skólinn er ákaflega stoltur af árangri unga listafólksins og óskar þeim og kennurum þeirra sérstaklega til hamingju. Einnig er skólinn afar þakklátur öllum þeim einstaklingum og fyrirtækjum og stofnnum sem styrktu þau fjárhagslega til fararinnar. Stuðningsmenn ísfirsku ungmennannna fjölmenntu í Hörpuna í gær og hvöttu þau áfram, foreldrar og aðrir ættingjar, margir kennarar skólans fyrr og nú, gamlir nemendur, brottfluttir Ísfirðingar og aðrir sem staddir voru í Reykjavík og mættu bara til að styðja sitt fólk og svo mætti áfram telja. Klapp- og stuðningsliðið stóð sig svo vel á tónleikunum að margir höfðu á orði að það væri alveg einstakt og aðrir skólar mættu taka sér það til fyrirmyndar!