Tvær flautur og píanó á sunnudag

10. nóvember 2013 | Fréttir

Nk. sunnudag, 17.nóvember kl.15 verða fyrstu áskriftartónleikar nýs starfsárs á vegum Tónlistarfélags Ísafjarðar í Hömrum.

Á tónleikunum kemur fram Íslenska kammertríóið en það skipa þrír af fremstu og reyndustu tónlistarmönnum landsins, hjónin Guðrún Birgisdóttir og Martial Nardeau flautuleikarar og með þeim píanóleikarinn Selma Guðmundsdóttir.
Á afar fjölbreyttri og aðgengilegri efnisskrá eru margar kunnar tónlistarperlur, sem ísfirskir áheyrendur munu kannast við, s.s. eftir Bach, Gluck , Schubert, Grieg og Fauré.
Þá eru nokkur íslensk lög á dagskránni, einnig kínversk þjóðlög og loks Fantasíutilbrigði um stef úr óperunni Rígóletto, sannkölluð flugeldasýning!
.
Þessa dagkrá fluttu þau nýlega í tónleikaferð sinni um Kína við afar góðar undirtektir.

 

Flautuleikur hefur ávallt notið mikilla vinsælda hér vestra og vonandi verður góð aðsókn á þessa skemmtilegu tónleika. Guðrún Birgisdóttir er nátengd Vestfjörðum, hún á rætur að rekja til Önundarfjarðar og var annar stofnandi tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið á sínum tíma. Selma Guðmundsdóttir er fædd og uppalin á Ísafirði þar sem hún hlaut grunnmenntun sína í píanóleik hjá Ragnari H. Ragnar.

Tónleikarnir eru eins og áður segir áskriftartónleikar á vegum Tónlistarfélags Ísafjarðar og áskriftarkort gilda en einnig eru seldir miðar við innganginn á kr. 2.000, 1.500 fyrir eldri borgara en ókeypis fyrir skólafólk 20 ára og yngri.


VELKOMIN Á TÓNLEIKA!

 

Nánar um flytjendurna:

Íslenska kammertríóið, skipað þeim Martial Nardeau og Guðrúnu Birgisdóttur flautuleikurum og Selmu Guðmundsdóttur píanóleikara hóf samstarf sumarið 2013 og var fyrsta tónleikaferð þeirra erlendis til Kína í október sl. þar sem þau héldu 10 tónleika í 7 borgum.

Martial Nardeau hóf að læra á flautu níu ára gamall hjá Raymond Pauchet í Tónlistarskólanum í Boulogne sur Mer í Frakklandi og útskrifaðist þaðan sextán ára gamall. Á næstu árum hélt hann áfram námi í París hjá Fernand Caratgé og Roger Bourdin og vann til margra verðlauna og viðurkenninga. Á árunum 1979 til 1982 var hann fastráðinn við Lamoureux-sinfóníuhljómsveitina í París ásamt því að vera flautukennari við Ríkistónlistarskólana í Limoges og Amiens en kom jafnframt víða fram sem einleikari. Árið 1982 settist Martial að á Íslandi. Hann hefur æ síðan starfað í Kammersveit Reykjavíkur og Hljómsveit Íslensku Óperunnar og leikið með fjölmörgum tónlistarhópum.  Hann er fastráðinn við Sinfóníuhljómsveit Íslands og starfar sem kennari við Listaháskóla Íslands. Martial hefur einnig ferðast mikið sem tónlistarmaður, komið fram í um það bil 20 löndum og  leikið einleik með hljómsveitum hér heima og erlendis. Hann er ekki við eina fjölina felldur í tónlistariðkun sinni því hann leikur einnig á barokkflautu, jazzar og semur tónlist þegar sá gállinn er á honum. Þá hefur  Martial alla tíð verið ötull við flutning íslenskra verka, sem mörg hafa verið samin fyrir hann sérstaklega. Leikur hans hefur verið hljóðritaður og gefinn út á geisladiskum heima og erlendis.

Guðrún Sigríður Birgisdóttir stundaði nám í flautuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Manuelu Wiesler og lærði svo áfram við Musikkhögskolen i Oslo og í Frakklandi.  Að loknum prófum frá Ecole Normale de Musique í París (m.a. Diplôme d´Exécution í flautuleik og Diplôme Supérieur í kammermúsík) stundaði hún framhaldsnám hjá Raymond Guiot og Pierre-Yves Artaud í þrjú ár með styrk frá franska ríkinu.  Hún hóf störf á Íslandi árið 1982 sem sjálfstæður flautuleikari og kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík og Tónlistarskóla Kópavogs.  Hún er nú deildarstjóri við Tónlistarskóla Kópavogs og hefur útskrifað þaðan marga nemendur. Guðrún hefur frá unga aldri leikið mikið í Hljómsveit íslensku óperunnar og gert fjölda sýninga og tónleika fyrir börn m.a. í „Tónlist fyrir alla.“ Hún hefur haldið marga einleiks- og kammertónleika, hljóðritað fyrir útvarp og sjónvarp og gefið út nokkra geisladiska en einnig leikið á barokkflautu og frumflutt íslensk flautuverk, sem mörg hafa verið samin fyrir hennar tilstuðlan. Guðrún hefur fengið starfsstyrki sem Bæjarlistamaður Kópavogs og starfslaun íslenska ríkisins, síðast nú árið 2013. Hún hefur komið fram sem einleikari og kammermúsíkant erlendis í t.d. í París, Oslo, Vín, Ljubljana, Prag, Mecixo borg, Atlanta, San Fransisco , Minneapolis og víðar.

Selma Guðmundsdóttir hóf tónlistarnám sitt í Tónlistarskóla Ísafjarðar, en lauk síðar  einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Við tók framhaldsnám hjá Hans Leygraf við Mozarteum í Salzburg og Tónlistarháskólann í Hannover.
Selma hefur haldið fjölda einleikstónleika bæði hér heima og erlendis, leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveitinni í Þrándheimi og komið margsinnis fram í útvarpi og sjónvarpi. Selma hefur starfað mikið með öðrum hljóðfæraleikurum og söngvurum og oft leikið með Kammersveit Reykjavíkur, m.a á Listahátíð í Bergen og á tónleikaferð um Bretland. Hún hefur leikið reglulega með Sigrúnu Eðvaldsdóttur fiðluleikara frá 1986, m.a. í Helsinki, tónleikaferð um Þýskaland og Litháen, í Skotlandi og í Carnegie Hall í New York. Sumarið 2011 héldu þær upp á 25 ára samstarfsafmæli með tónleikaferð til Kína, þar sem þær léku í 8 borgum. Þær hafa gefið út tvær geislaplötur, Cantabile (1991) og Ljúflingslög (1992). Selma hefur leikið einleiksverk fyrir píanó inn á geislaplötu (1992), leikur með Áshildi Haraldsdóttur flautuleikara á geislaplötunni Miniatures (1995), með Kammersveit Reykjavíkur á geislaplötunni Kvöldstund með Mozart og Laufeyju Sigurðardóttur fiðluleikara á plötunni Stemma með verkum Jórunnar Viðar. Samstarf við Gunnar Kvaran sellóleikara hófst 1995 og hafa þau haldið tónleika víða, m.a. leikið um 200 tónleika fyrir skólabörn. Þau hafa gefið út tvær geislaplötur Elegíu  (1996) og Gunnar og Selma  með rómantískum verkum fyrir selló og píanó (2004). Í júní 2012 héldu þau Gunnar og Selma í tónleikaferð til Kína. Selma hefur einnig starfað með norska tenórsöngvaranum Harald Björköy á síðustu árum og haldið með honum tónleika í Noregi og á Íslandi. Einnig hefur hún leikið fjórhent á píanó með ísraelsk/rússneska píanistanum Albert Mamriev.
Selma starfar sem píanókennari við Tónlistarskólann í Reykjavík og meðleikari/adjunkt við Listaháskóla Íslands. Hún var einn af stofnendum Richard Wagner félagsins á Íslandi árið 1995 og hefur verið formaður þess frá upphafi.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur