Tríóið Tríólógía heldur tónleika í Hömrum á Ísafirði miðvikudaginn 17.mars kl. 20:00. Tríóið skipa söngkonurnar Sólveig Samúelsdóttir mezzósópran og Hallveig Rúnarsdóttir sópran ásamt píanóleikaranum Hrönn Þráinsdóttur. Á tónleikunum verða flutt einsöngslög og dúettar eftir Schumann og Mendelssohn.
Tónleikarnir eru 3. áskriftartónleikar Tónlistarfélags Ísafjarðar á þessu starfsári. Áskriftarkort gilda, en einnig verða seldir miðar við innganginn. Miðaverð er kr. 1.500, kr. 1.000 fyrir lífeyrisþega, en skólafólk 20 ára og yngri fær frían aðgang.
Sólveig Samúelsdóttir stundaði píanónám frá 10 ára aldri hjá Sigríði Ragnarsdóttur við Tónlistarskólann á Ísafirði og söng jafnframt með kór skólans. Er Sólveig var 16 ára gömul flutti hún frá Ísafirði til Reykjavíkur og hélt áfram píanónámi hjá Halldóri Haraldssyni við Tónlistarskólann í Reykjavík. Einnig sótti hún einkatíma í píanóleik hjá Jónasi Sen einn vetur.
Sólveig hóf söngnám við Söngskólann í Reykjavík haustið 1997 og lauk þaðan 8. stigi vorið 2002 undir handleiðslu Elísabetar F. Eiríksdóttur. Hún stundaði síðan áframhaldandi söngnám við Listaháskóla Íslands hjá Elísabetu Erlingsdóttur og lauk þaðan B.Mus. gráðu í einsöng 2005 og kennsluréttindanámi 2006. Að því loknu sótti hún einkatíma á Ítalíu. Sólveig hefur sótt ýmis meistaranámskeið í söng hjá m.a. Joy Mammen, Galinu Pisarenko, Dalton Baldwin og Kiri Te Kanawa. Á námsárunum var Sólveig annar tveggja sigurvegara í sólistakeppni LHÍ og Sinfóníuhljómsveitar Íslands og söng í framhaldi af því á tónleikum með Sinfóníuhljómsveitinni. Hún kemur reglulega fram á tónleikum og hefur einnig sungið í óperuuppfærslum hjá Óperustúdíói Íslensku Óperunnar, nú síðast hlutverk Dorabellu í Cosí fan tutte eftir Mozart. Sólveig hefur sungið með kammerkórunum Schola Cantorum og Carminu og flutt með þeim margvíslega tónlist bæði innanlands sem utan og tekið þátt í upptökum, m.a. á tónleikum með Björk. Árið 2005 gaf Sólveig út hljómplötuna Melodia. Þar syngur hún ljúfa tónlist eftir meistara kvikmyndatónlistar í útsetningum bróður síns Samúels Jóns Samúelssonar. Hún hefur auk þess ljáð Disney teiknimyndum rödd sína.
Hallveig Rúnarsdóttir hóf söngnám hjá Sigurði Demetz árið 1991, en lauk 8. stigi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Rutar L. Magnússon árið 1998. Það sama ár hóf hún nám hjá Theresu E. Goble við Guildhall School of Music and Drama í London og útskrifaðist þaðan með láði sumarið 2001. Meðal hlutverka Hallveigar eru Fiordiligi í Cosi fan tutte eftir W.A. Mozart, Jane í Happy End eftir Kurt Weill, Servilia í La Clemenza di Tito eftir W. A. Mozart og Echo í óperunni Ariadne auf Naxos eftir Richard Strauss.
Hallveig hefur nokkrum sinnum komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands einnig með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, kammersveitinni Aldavinum, Caput-hópnum og fleiri tónlistarhópum. Hallveig hefur komið fram sem einsöngvari víða um heim, er virkur óratóríusöngvari hér á landi og víðar og hefur einnig lagt áherslu á flutning barrokk og endurreisnartónlistar. Hún er einn af stofnendum kammerhópsins Rinascente. Hallveig hefur haldið fjölda einsöngstónleika á Íslandi undanfarin ár þar sem hún hefur lagt áherslu á ljóðasöng en einnig hefur jhún frumflutt mörg ný íslensk verk.. Hallveig syngur um þessar mundir hlutverk Giannettu í Ástardrykknum eftir Donizetti í Íslensku óperunni, framundan eru svo Messías í Neskirkju, einsöngstónleikar með nýjum og eldri sönglögum eftir íslensk kventónskáld auk þess sem það má sjá hana í uppfærslu Borgarleikhússins á Söngvaseið Rogers og Hammerstein.
Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari hóf nám við Tónmenntaskólann í Reykjavík 7 ára gömul hjá Erlu Stefánsdóttur. Hún stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík á árunum 1991-1998 hjá Jónasi Ingimundarsyni og lauk þaðan burtfararprófi. Síðan stundaði h´n nám við tónlistarháskólann í Freiburg og lauk þaðan Diploma kennaraprófi með ljóðasöngundirleik sem aukafag vorið 2004. Kennarar hennar voru Prof. Dr. Tibor Szasz í píanóleik og Prof. Hans-Peter Müller í ljóðaundirleik. Að því loknu stundaði hún nám við tónlistarháskólann í Stuttgart undir handleiðslu Prof. Cornelis Witthoefft þar sem hún lauk sumarið 2007 sérhæfðu Diploma námi í ljóðasöngdeild skólans. Hrönn hefur komið fram á tónleikum víða, m.a. í Þýskalandi, Austurríki, Ítalíu og á Íslandi sem einleikari, meðleikari og í kammertónlist. Auk þess hefur hún sótt mörg námskeið (masterclassa) og tekið þátt í tónlistarhátíðum m.a. UNM (Ung Nordisk Musik) sem fór fram árið 1997, 2002 í Reykjavík.
Hrönn er meðlimur kammersveitarinnar Ísafoldar sem tilnefnd var til íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2005, en sveitin var stofnsett árið 2003 og hefur Hrönn verið meðlimur frá árinu 2004.