Tónlistarhátíðin Við Djúpið hófst kl. 8:40 í morgun með jógaæfingum fyrir þátttakendur í gamla íþróttahúsinu á Ísafirði. Masterklassar í fiðlu og píanóleik hófust strax í kjölfarið og fyrstu tónleikarnir verða í Hömrum í kvöld þriðjudagskvöldið 21.júní kl. 20:00.
Það er sellóleikarinn Sæunn Þorsteinsdóttir sem ríður á vaðið og flytur glæsilega einleiksdagskrá, sellósvítu nr. 3 eftir Bach, sellósvítu eftir Benjamin Britten og nýtt verk eftir Kendall Briggs.
Sæunn Þorsteinsdóttir hefur komið fram sem einleikari og flytjandi kammertónlistar víðsvegar um heiminn, meðal annars með Itzhak Perlman, Kim Kashkashian, Cavani kvartetinum, Jupiter Symphony Chamber Players og meðlimum Guarneri-kvartettsins. Hún hefur unnið til verðlauna fyrir leik sinn og frumflutt fjölmörg verk, m.a. verk sérstaklega samin fyrir hana eftir Daníel Bjarnason og Nicholas Csicsko.
Mikið fjör og líf er í tónslistarskólanum þessa dagana, fullt af ungu fólki og efnilegum listamönnum við æfingar, nam og kennslu. Framundan er ótrúlega flott dagskrá tónleika og masterklassa, sem vestfirskir tónlistarunnendur eru hvattir til að nýta sér. Svo er jógatímarnir sem ekki má gleyma!
Hér er tónleikalisti hátíðarinnar:
Þriðjudagur 21. júní
Opnunartónleikar í Hömrum kl. 20:00 – Sæunn Þorsteinsdóttir, selló
Miðvikudagur 22. júní:
Hádegistónleikar kl. 12:10 í grunnskólaanddyrinu – Óbóleikur
Hátíðartónleikar kl. 20 í Hömrum – píanóleikur – fjórhent
Fimmtudagur 23.júní
Hádegistónleikar kl. 12:10 í grunnskólaanddyrinu – söngur og píanó
Tónleikar kl. 20 í Hömrum – Ensemble ACJW – óbókvartett frá New York
Föstudagur 24.júní
Hádegistónleikar kl. 12:10 í grunnskólaanddyrinu – Duo Harpwerk – fjölbreytt slagverk og harpa
Jónsmessutónleikar kl. 20 í Hömrum – fiðla og píanó
Miðnæturtónleikar kl. 23 í Minjasafninu í Neðstakaupstað – harmóníka
Laugardagur 25.júní
Hádegistónleikar kl. 12:00 í Hömrum – Tangóveisla
Nemendatónleikar í Hömrum kl. 14:00 – nemendur sem voru á námskeiðunum
Tónleikar kl. 17 í Hömrum – Ensemble ACJW flytur verk eftir 3 ung tónskáld
Sunnudagur 26.júní
Nemendatónleikar kl. 13 í Hömrum – nemendur sem voru á námskeiðunum
Lokatónleikar kl 16 í Hömrum í beinni útsendingu RÁSAR 1 – Listamenn hátíðarinnar koma fram