Tónlistarskóli Ísafjarðar efnir til Tónlistarhátíðar æskunnar á næstu dögum í tilefni af Degi tónlistarskólanna, en dagurinn verður haldinn hátíðlegur um land allt til að vekja athygli almennings og stjórnvalda á því mikla starfi, sem fram fer í tónlistarskólunum. Dagskráin er fjölbreytt, samleikstónleikar, samsöngur, skólatónleikar og fleira.
Dagskráin hefst á morgun, fimmtudaginn 26.febrúar, með heimsókn Barnakórs skólans og nokkurra ungra hljóðfæraleikara á Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði.
Í tónlistarsalnum Hömrum á Ísafirði, verða tvennir nemendatónleikar af þessu tilefni, fimmtudagskvöldið 26.febrúar kl. 19:30 og laugardaginn 28.febrúar kl. 16:00. Um er að ræða viðamikla tónleika með mismunandi efnisskrám, þar sem aðaláherslan er lögð á samleik nemenda. Á dagskránni eru um 60 atriði og kennir þar margra ólíkra grasa, gömul tónlist og ný, klassísk og poppuð – lúðrasveit, strengjasveit, hópar af ýmsum stærðum og gerðum auk kórsöngs – fjölbreytninni eru lítil takmörk sett.
Styrktarsjóður Tónlistarskóla Ísafjarðar selur veitingar í tónleikahléi en aðgangur að tónleikunum er ókeypis og öllum heimill enda eru þeir ekki hvað síst haldnir til kynningar á starfi skólans fyrir foreldra og aðra velunnara.
Miðvikudagskvöldið 4. mars halda nemendur í útibúum skólans á Suðureyri og Flateyri sameiginlega tónleika í mötuneyti Eyrarodda á Flateyri.
Föstudaginn 6.mars verða í Hömrum skólatónleikar fyrir nemendur 4., 6. og 8.bekki Grunnskólans á Ísafirði. Haldnir verða þrennir tónleikar á skólatíma, þar sem tónlistarnemar í hverjum árgangi fyrir sig leika fyrir kennara sína og bekkjarfélaga.
Tónlistarhátíðinni lýkur í hádeginu á föstudeginum 6.mars þegar tónlistarkennarar bjóða bæjarbúum til fjöldasöngs á göngum Stjórnsýsluhússins. Þar verða tekin nokkur hress og skemmtileg lög við allra hæfi en þetta verður í 4. sinn í vetur sem efnt verður til samsöngs af þessu tagi í Stjórnsýsluhúsinu.