Nú í maí verður að venju mikill fjöldi tónleika á vegum skólans, hinir hefðbundnu tónleikar hljóðfæranema og sameiginlegir tónleikar útibúanna á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri. Lúðrasveitir skólans hefja leikinn með Vorþyt í Hömrum þann 2. maí en aðrir vortónleikar í Hömrum verða 3., 7., 9. og 17. maí. Tónleikalögin eru að verða tilbúin hvert af öðru og foreldrar eru hvattir til að fylgjast með því að börnin undirbúi sig vel, mæti stundvíslega á æfingar og tónleika og hafi samband við kennara ef eitthvað kemur uppá. Nemendur þurfa á hvatningu og stuðningi að halda við undirbúning tónleika og geta foreldrar veitt slíkan stuðning með ýmsu móti, ekki síst með því að skapa nemandanum frið og tíma til æfinga. Eins og við vitum öll er maí afar annasamur mánuður hjá nemendum og uppskeruhátíðir víða. Við reynum eftir fremsta megni að koma til móts við óskir foreldra og nemanda um tónleika- og æfingatíma en ekki er alltaf unnt að verða við þeim.
Prófavikur verða 14.-25. maí og munu 15 nemendur taka áfangapróf að þessi sinni. Einn nemandi tekur framhaldspróf og mun í kjölfar þess halda tónleika sem er hluti af prófinu. Þeir tónleikar verða auglýstir síðar. Vorpróf og stigspróf verða daganna 22.-25. maí. Skólaslit og lokahátíð skólans verður fimmtudaginn 31. maí kl. 20:00 í Ísafjarðarkirkju. Þar verða verðlaun afhent og flutt verður tónlistardagskrá og ávörp. Skráning er hafin fyrir skólaárið 2018-2019 og eru nemendur sem stunda nám við Tónlistarskólann beðnir um að láta vita hvort þeir hafi hug á að halda áfram námi við skólann annað hvort með því að senda tölvupóst á netfangið tonis@tonis.is eða hafa beint samband við skrifstofu á opnunartíma í síma 450-8340.
Við höfum birt fréttabréf okkar á Facebook síðu skólans, nemendur fá eintök á næstu dögum með sér heim þar sem stendur hvenær þeir eiga að spila og mæta á aðalæfingu.
Vortónleikaröðin:
Miðvikudagurinn 2. maí kl. 20:00 Vorþytur Lúðrasveita T.Í í Hömrum Fimmtudaginn 3. maí kl. 18:00 Vortónleikar I í Hömrum- aðalæfing kl. 14:30 Fimmtudagur 3. maí kl. 20:00 Vortónleikar II í Hömrum- aðalæfing kl. 16:00 Mánudaginn 7. maí kl. 18:00 Vortónleikar III í Hömrum- aðalæfing kl. 14:30 Mánudaginn 7. maí kl. 20:00 Vortónleikar IV í Hömrum- aðalæfing kl. 16:00 Miðvikudaginn 9. maí kl. 18:00 Vortónleikar V í Hömrum- aðalæfing kl. 14:30 Miðvikudaginn 9. maí kl. 20:00 Vortónleikar VI í Hömrum- aðalæfing kl. 16:00 Fimmtudaginn 17. maí kl. 18:00 Tónleikar söngnema í Hömrum Fimmtudaginn 24. maí kl. 18:00 Tónleikar tónlistarnemenda T.Í. í útibúum skólans Framhaldsprófstónleikar verða auglýstir síðar. |