Tölvan sem hljóðfæri

15. ágúst 2018 | Fréttir

Síðasta skólaár bauð skólinn upp á hóptíma í raftónlist undir leiðsögn Andra Péturs Þrastarsonar. Í ár býðst nemendum að sækja námið í einkatímum. Kennslan er 60 mínútur á viku og er ætlað nemendum 13 ára og eldri, en þau þurfa að eiga sína eigin tölvu eða Ipad til umráða. Í raftónlistinni fá nemendur að kynnast fjölbreyttum möguleikum sem tölvan býður uppá í tónlistarsköpun.

Í tímunum verður farið yfir grunnatriði raftónlistar: að skrifa, útsetja, hljóðhanna og koma fram. Ýmis forrit verða kynnt til leiks og leitast er eftir að nemendur verði sjófærir á hugbúnaðinn, geti talað um vinnuferlið sitt og eigi auðvelt með að veita sköpunargáfu sinni farveg. Það er í mörg horn að líta í raftónlist, og sjaldan eru skýr mörk á milli þess hvenær er verið að semja, útsetja og hljóðhanna og blanda. Góðar venjur, og smurt vinnuflæði skiptir sköpum á öllum stigum verksins til að auka líkurnar á því að það komist á leiðarenda.

Á að byrja frá núlli, eða að sækja sér innblástur með því að grípa hljóð- og midi-búta úr öðrum verku? Taktframvinda getur myndað lagform, og endurkvæmar aðgerðir til að búa til nýtt efni. Hvaða hljóðgervil skal velja til að búa til hvaða hljóð? Hvernig nota má effekta bæði á gagnlegan og skapandi hátt? Og ekki má gleyma að búa til rými til þess að leika af fingrum fram og hafa gaman að.

Raftónlist er óhemjubreið stefna og kemur fram í nútímasamfélagi í ýmsum birtingarmyndum, í danstónlist, poppi, hip-hoppi, kvikmyndatónlist og auglýsingastefjum svo fátt eitt sé nefnt. Það sem allir kimar stefnunnar eiga sameiginlegt er að til að byrja þarf ekki að eiga fullt af dýrum tækjum og tólum. Með aðeins tölvu, tónlistarforrit, heyrnatól og sköpunarþörf að vopni opnast dyrnar að óteljandi lögum og hljóðheimum.

Það er hægt að sækja eingöngu um í raftónlist en nemendum Tónlistarskólans gefst kostur á að sækja tíma í raftónlist sem annað hljóðfæri og fá 40% afslátt af verðskrá.

 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is