Tímamótaflutningur á Brahms

20. september 2015 | Fréttir

Nýverið kom út geisladiskur með klarinettsónötum Brahms Op. 120 og Fantasiestücke Op.73 eftir Schumann í flutningi hjónanna Selvadore Rähni klarinett og Tuuli Rähni píanó.
Klarinettsónötur Brahms Op. 120 þykja einstaklega krefjandi bæði hvað varðar tækni og músíkalska túlkun. Geisladiskur Rähni-hjónanna hefur fengið frábæra dóma og einn gagnrýnandi gengur svo langt að segja að þetta sé  besta útgáfan á sónötunum sem út hefur komið.
Selvadore og Tuuli eru nú búsett í Bolungarvík þar sem hann stjórnar tónlistarskólanum, en hún starfar við  tónlistarkennslu bæði þar, á Ísafirði og á Þingeyri. Þau kynntust árið 1989 þegar þau voru bæði við nám í Tónlistarháskólanum í Tallinn í Eistlandi. Hann var einmitt að leita sér að píanista til að leika með sér umræddar Brahmssónötur þegar honum var bent á Tuuli, en þau voru þá bæði um tvítugt. Þessi samleikur varð þeim afar örlagaríkur því þau urðu ástfangin og leiðir þeirra hafa legið saman síðan.
Sónöturnar hafa fylgt þeim hjónum æ síðan, m.a. léku þau þær á lokaprófinu í Tónlistarháskólanum í Karlsruhe í Þýskalandi nokkrum árum síðar og fengu hæstu mögulega einkunn fyrir. Smám saman varð til hugmyndin um að gefa flutning sinn á  Brahms og Schumann út á geisladiski. Selvadore starfaði í nokkur ár sem 1.klarinettuleikari Sinfóníuhljómsveitar Kyotoborgar í Japan. Samningur hans í Kyoto var ótímabundinn og starfið tók allan tíma hans, svo Brahms-verkefnið varð að bíða.
Þau fluttu til Íslands ásamt börnum sínum tveimur haustið 2005 og bjuggu fyrst á Laugum í Þingeyjarsýslu, þar sem hann var skólastjóri Tónlistarskólans í fimm ár, áður en þau fluttu til Bolungarvíkur. Þá ákváðu þau að gera drauminn um Brahms-geisladiskinn að veruleika og fóru í upptökur 2011 og 2012 í upptökustúdíóinu  Tritonus í Þýskalandi, en upptökustjóri var Andreas Neubronner.
Í júní 2015 var diskurinn tilbúinn og gefinn út og er skemmst frá því að segja að hann hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda.
Aare Tool, gagnrýnandi SIRP, helsta lista- og menningartímarits Eistlands, skrifaði m.a. um diskinn – lausleg þýðing:
„Sem betur fer, hafa Selvadore og Tuuli Rähni ekki fallið fyrir hinni algengu „haust“túlkun á sónötunum, heldur er flutningur þeirra fjörlegur og fjörgandi, en ljóðrænan samt hvergi fjarri. Athyglisverðast við upptökuna er þó án efa hinn voldugi klarinetthljómur Selvadores.“
Hann segir ennfremur: „Hvað varðar þétta og hárnákvæma inntónun á öllum registrum, voldugar fraseringar, og óaðfinnanlegan samleik, þá minnist ég ekki neinnar upptöku sem sé betri en þessi flutningur Selvadore og Tuuli Rähni. ….Í stuttu máli, þá hefur þessi upptaka alla burði til að verða nýja „viðmiðunar“upptakan á klarinettsónötum Brahms.“
Geisladiskurinn er seldur víða um heim, m.a.verður hann á næstunni til sölu hjá hinu þekkta fyrirtæki Vandoren í París, Hér á Íslandi fæst hann m.a. í 12 tónum í Reykjavík, í verslunum á Ísafirði og Bolungarvík, en einnig er hægt að kaupa hann beint frá Selvadore og Tuuli Rähni, netfang: rahni@simnet.is, sími 863 5286.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur