Þungar áhyggjur kennara

11. nóvember 2014 | Fréttir

Kennarar skólans komu saman fimmtud. 6. nóv. sl. til að semja ályktun til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar. Arna Lára Jónsdóttir tók á móti ályktuninni í Stjórnsýsluhúsinu. Ályktunin hljóðar svona:

 

Tónlistarkennarar í Ísafjarðarbæ skora á bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að beita sér fyrir því að samið verði sem fyrst við Félag tónlistarkennara. Það er ólíðandi að ein stétt innan Kennarasambands Íslands sé neydd til að grípa til aðgerða til að ná fram sambærilegum kjörum og aðrar starfsstéttir innan sambandsins. Það er mikilvægt að samningsaðilar nái sem fyrst sáttum svo að núvarandi verkfall valdi sem minnstum skaða fyrir nemendur. Hið mikilvæga starf sem fram fer í tónlistarskólum landsins liggur undir og hætt við að námsframvinda nemenda og tónlistarlíf Íslendinga hljóti skaða af. Stöndum vörð um tónlistarskólakerfið á Íslandi, skólakerfis sem margsannað hefur gildi sitt og við getum öll verið stolt af. 

 

Við trúum því að sveitarfélagið okkar vilji leita allra leiða til að starf tónlistarskólanna megi halda áfram nemendum og samfélaginu öllu til góðs. 

 

Ísafirði 6. nóv. 2014

 

Kennarar Tónlistarskólans lýsa yfir þungum áhyggjum vegna nemenda sinna og námsframvindu þeirra