Þrjár lúðrasveitir þeyta lúðra á vortónleikum sínum

4. maí 2010 | Fréttir

Þrjár lúðrasveitir Tónlistarskóla Ísafjarðar halda sína árlegu vortónleika í Ísafjarðarkirkju miðvikudagskvöldið 5.maí kl. 20. Tónleikarnir bera yfirskriftina VORÞYTUR og er efnisskráin fjölbreytt og hressileg, klassík og popp, þjóðlög og marsar. Á tónleikunum koma fram þrjár sveitir með alls um 50 hljóðfæraleikurum en sumir þeirra leika með tveimur sveitum. Yngstu nemendurnir eru í Skólalúðrasveitinni, alls 18 krakkar, í svokallaðri miðsveit eru 12 nemendur, sem flest eru einnig í „Stóru“ luðrasveitinni en hana skipa 31 hljóðfæraleikari, bæði nemendur og þaulreyndir hljóðfæraleikarar. Það er Eistlendingurinn Madis Maeekalle sem stjórnar öllum sveitunum eins og undanfarin ár.

Aðgangseyrir að tónleikunum er 1.000 krónur, en 500 krónur fyrir börn 12 ára og yngri. Hann rennur allur í ferðasjóð sveitanna enda eru tónleikarnir mikilvægur liður í fjáröflun þeirra.

 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is