Þátttaka ísfirskra píanónema vakti athygli

26. nóvember 2012 | Fréttir

Ungur píanónemandi í Tónlistarskóla Ísafjarðar, Mikolaj Ólafur Frach, hafnaði í 4.-5. sæti í 1.flokki í EPTA píanókeppninni sem haldin var í Salnum í Kópavogi í nóvember. Ísfirðingarnir Mikolaj Ólafur og Hilmar Adam Jóhannsson kepptu ásamt 20 öðrum píanónemendum í 1. flokki, sem er flokkur 14 ára og yngri og Kristín Harpa Jónsdóttir keppti í 2. flokki (fyrir 18 ára og yngri) ásamt 17 öðrum nemendum. Það er einstaklega ánægjulegt að Mikolaj skyldi komast í úrslitin, en ísfirsku krakkarnir stóðu sig öll með stakri prýði og voru skólanum, kennurum sínum og bæjarfélaginu til mikils sóma.

Það er Íslandsdeild EPTA sem stendur fyrir keppninni, en hún er ætluð nemendum 25 ára og yngri og alls tóku 44 nemendur þátt að þessu sinni. Það vakti sérstaka athygli að Tónlistarskóli Ísafjarðar  skyldi eiga þrjá nemendur í keppninni.  Einn nemandi (í 1.flokki) kom frá Akureyri en annars voru keppendurnir allir frá höfuðborgarsvæðinu eða Suðurnesjum. 

 

Myndina tók Halldór Sveinbjörnsson af Hilmari, Kristínu Hörpu og Mikolaj ásamt kennurum þeirra Beötu Joó og Iwonu Frach.

 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur