Kæru tónlistarunnendur,
verið hjartanlega velkomin á 1. áskriftartónleika Tónlistarfélags Ísafjarðar starfsárið 2019/2020.
Næstkomandi laugardag þann 12. október 2019 sækja okkur heim listamennirnir Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir fiðlu- og básúnuleikari og Ingi Bjarni Skúlason píanóleikari.
Miðar á tónleikana verða seldir við innganginn.
Miðaverð er 3000 kr., en 2000 kr. fyrir eldriborgara og öryrkja.
Ókeypis er fyrir skólafólk 20 ára og yngra.
Hér fyrir neðan má svo sjá umfjöllun um listamennina.
fyrir hönd Tónlistarfélags Ísafjarðar
Sigrún Pálmadóttir
Um dúóið og listamennina:
Dúettformið er einfalt, stílhreint en á sama tíma mjög krefjandi. Íslenska orðið yfir píanó, slagharpa er svo lýsandi hlutverki píanistans; takturinn sleginn á sama tíma og blússandi yfirferð hljómaganganna. Ofan á píanóleikinn fá laglínuhljóðfærin að svífa með, stundum í hlutverki laglínu og aðra stundina í kontralínum og milliröddum. Tónleikarinir eru frumraun dúettsins sem leitast við að yfirgefa hefðbundin form þó alltaf með lýrískri nálgun.
Ingi Bjarni lagði stund á jazz-píanó nám í Tónlistarskóla FÍH og útskrifaðist þaðan árið 2011. Því næst lauk hann bachelor prófi við Konunglega Tónlistarháskólanum (Koninklijk Conservatorium) í Den Haag vorið 2016. Vorið 2018 lauk hann sérhæfðu mastersnámi í tónlist sem kallast Nordic Master: The Composing Musician. Ingi Bjarni hefur þó nokkrum sinnum komið fram á Jazzhátíð Reykjavíkur. Einnig hefur hann spilað á alþjóðlegum jazzhátíðum líkt og ELBJazz í Hamborg, Jazzahead í Bremen, Copenhagen Jazz Festival, Nordic Jazz Comets, Vilnius Jazz Festival í Litháen og Lillehammer Jazz Festival í Noregi. Í stuttu máli mætti segja að Ingi Bjarni hefur leikið eigin tónsmíðar með fjölda fólks á Íslandi og í Evrópu. Ásamt því að vera virkur tónlistarflytjandi hefur Ingi Bjarni fengist við kennslu og undirleik.
Ingi Bjarni hefur gefið út tvær tríó plötur, Skarkali (2015) og Fundur (2018). Sú síðari kom út hjá bandaríska útgáfufyrirtækinu Dot Time Records. Nýverið kom út platan Tenging sem er þriðja platan hans. Platan er gefin út af norska útgáfufyrirtækinu Losen Records og er tekin upp með kvintett skipuðum tónlistarfólki frá Skandinavíu.”
Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir hóf tónlistarnám sitt í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar þar sem fiðlan og básúnan urðu fyrir valinu. Eftir að hafa lokið BA gráðu úr heimstónlistardeild Codarts í Rotterdam tóku við sjálfstæðar námsferðir til Brasilíu ásamt tónleikaferðalögum með ýmsum hljómsveitum. Eftir þrjú ár í ferðatösku var snúið heim og hefur Sigrún verið virkur flytjandi og útsetjari í íslensku tónlistarlífi. Sigrún leikur með ýmsum hljómsveitum sem og latin kvartettnum Los Bomboneros, grískri kaffihúsahljómsveit Syntagma Rembetiko auk þess að vera fastur meðlimur Stórsveitar Reykjavíkur. Auk flytjendastarfsins kennir Sigrún í tónlistarskóla Hafnarfjarðar, MÍT auk stundakennslu við Listaháskóla Íslands.
Sigrún hefur gefið út plötuna Hljóð (sound/silence) sem var tekin upp í Rio og á Íslandi. Platan er einskonar listamannsprófíll og frumraun Sigrúnar í tónsmíðum.