Svæðistónleikar NÓTUNNAR á laugardag

12. mars 2013 | Fréttir

Nk. laugardag 16.mars kl.13.30 verða svæðistónleikar NÓTUNNAR, uppskeruhátíðar tónlistarskóla, haldnir í Hömrum, sal Tónlistarskóla Ísafjarðar. Svæðistónleikar NÓTUNNAR eru haldnir á sama tíma á 4 stöðum á landinu og þar eru valin 9 framúrskarandi tónlistaratriði sem fá sérstaka viðurkenningu en einnig 3 atriði til þátttöku í Lokahátíð NÓTUNNAR í Eldborgarsal Hörpu 14.apríl. Tónleikarnir eru þannig í raun eins konar keppni, en dómnefnd skipa Halldór Haraldsson píanóleikari, Margrét Geirsdóttir tónmenntakennari og sviðsstjóri hjá Ísafjarðarbæ og Ólafur Kristjánsson fv. tónlistarskólastjóri og bæjarstjóri í Bolungarvík.

Sex tónlistarskólar af Vestfjörðum og Vesturlandi taka þátt í tónleikunum á laugardaginn og koma tónlistaratriðin frá Akranesi, Bolungarvík, Borgarbyggð, Ísafirði, Stykkishólmi og Súðavík. Tónlistarnemarnir sem fram koma á tónleikunum eru 58 talsins og sumir taka þátt í fleiru en einu atriði. Dagskráin er afar fjölbreytt og skemmtileg, einleikur og einsöngur, samleikur ólíkra hópa, og tónlistin er allt frá 18.öld til nútímans, sum lögin frumsamin eða unnin af nemendunum sjálfum.

Aðgangur að tónleikunum er ókeypis og öllum heimill meðan húsrúm leyfir, en tónleikarnir taka um 1 ½ klukkustund. Sérstök athygli skal vakin á því að hér er um keppni að ræða, tónleikarnir verða teknir upp (mynd og hljóð)  og mikilvægt er að kyrrð ríki í salnum svo ekkert trufli hina ungu flytjendur, sem hafa lagt svo hart að sér við undirbúning.

Að loknum tónleikunum verður Kvennakór Ísafjarðar með veglegt kaffihlaðborð í anddyri Grunnskólans við Austurveg í fjáröflunarskyni. Eftir kaffihléð verður lokaathöfn í Hömrum þar sem öllum þátttakendum verða afhentar þátttökuviðurkenningar og þar sem  tilkynnt verður hvaða 9 tónlistaratriði fá sérstakar viðurkenningar og hvaða 3 atriði fara í lokakeppnina í Reykjavík.

 

Um NÓTUNA
NÓTAN – uppskeruhátíð tónlistarskóla er samstarfsverkefni Félags tónlistarskólakennara, Félags íslenskra hljómlistarmanna og Samtaka tónlistarskólastjóra. Hátíðin verður haldin í fjórða sinn á vorönn ársins 2013. Aldrei fyrr hefur verið hrint í framkvæmd svo víðtæku samstarfsverkefni í kerfi tónlistarskóla, „í grasrót tónlistarsköpunar“ á landinu. 

Markmið nótunnar ná allt frá því að styrkja ungt tónlistarfólk til listsköpunar til þess að efla listir, menntun og menningu í samfélaginu.
Gagnvart tónlistarnemendum:
• Að bjóða upp á faglega hvetjandi vettvang fyrir tónlistarnemendur á öllum aldri, út um allt land,
• að gefa ungu tónlistarfólki tækifæri til að flytja tónlist og hlýða á aðra við metnaðarfullar aðstæður,
• að hvetja tónlistarnemendur til dáða með því að veita þeim viðurkenningu fyrir afrakstur vinnu sinnar og frammistöðu.
Gagnvart samfélaginu í víðu samhengi:
• Að efla vitund um mikilvægt hlutverk tónlistarskóla á sviði menntunar, lista og menningar,
• að efla skilning á víðtæku framlagi tónlistarfræðslu og tónlistar til þjóðarbúsins sem og mennsku samfélagsins,
• að efla tónlistarfræðslu og tónlistarlíf á Íslandi!

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is