SUNNA KAREN EINARSDÓTTIR heldur tónleika í Hömrum miðvikudagskvöldið 27.mars kl.20:00. Á tónleikunum mun Sunna Karen leika einleik og samleik á píanó og fiðlu og syngja ein og með öðrum. Auk hennar koma fram á tónleikunum Beáta Joó, Kristín Harpa Jónsdóttir, Hljómsveit píanónemenda T.Í., Strengjasveit T.Í., Skólakór T.I. og Gospelkór Vestfjarða. Á fjölbreyttri efnisskránni er tónlist frá ýmsum tímum og í ýmsum tónlistarstílum, eitthvað við allra hæfi.
Tónleikarnir eru kveðja Sunnu Karenar til vina og vandamanna hér á svæðinu, en hún hefur verið mjög áberandi í tónlistar- og leiklistarlífi bæjarins mörg undanfarin ár. Aðgangur að tónleikunum er öllum frjáls og ókeypis.
Sunna Karen Einarsdóttir sem fæddist á Ísafirði árið 1993 hefur stundað tónlistarnám og iðkað tónlist frá unga aldri. Hún var aðeins 6 ára þegar hún byrjaði í píanónámi hjá Margréti Gunnarsdóttur í Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar á Ísafirði og var þar í píanótímum allt til ársins 2006. Sunna Karen hefur samt sjaldan látið sér eitt hljóðfæri nægja og veturinn 2002-2003 lærði hún á klarinett hjá Madis Mäekalle í hópkennslu á vegum Grunnskólans og Tónlistarskólans. Haustið 2004 byrjaði hún í fiðlunámi hjá Januszi Frach í Tónlistarskóla Ísafjarðar og lauk grunnprófi á fiðlu með ágætiseinkunn vorið 2008. Eftir nokkra hvíld frá píanónáminu settist Sunna Karen aftur á píanóbekkinn haustið 2011 og nú var kennari hennar Beata Joó við Tónlistarskóla Ísafjarðar. Hún lauk miðprófi á píanó í nóvember síðastliðnum með ágætiseinkunn. Sunna Karen er liðtæk á harmóníku, gítar, bassa og fleiri hljóðfæri þótt hún hafi ekki hlotið formlega tilsögn á þau. Hún hefur lagt stund á bóklegar greinar, tónfræði, hljómfræði, tónheyrn, tónlistarsögu og hafa kennarar hennar í þeim greinum verið Margrét Gunnarsdóttir, Iwona Frach, Janusz Frach og Jónas Tómasson. Sunna Karen hefur sótt söngnámskeið hjá Bjarney Ingibjörgu Gunnlaugsdóttur og einnig tekið þátt í námskeiðum Listaháskóla íslands í „Skapandi tónlistarmiðlun“.
Sunna Karen hefur verið afar virk í starfi Tónlistarskóla Ísafjarðar, komið fram á ótal tónleikum skólans, bæði á fiðlu, píanó og í söng. Hún hefur leikið með Strengjasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar um árabil og jafnan verið einn traustasti meðlimur sveitarinnar.
Hún hefur tekið mjög virkan þátt í kórstarfi skólans allt frá því hún byrjaði að syngja með Kristalskórnum aðeins tíu ára að aldri og hefur um árabil verið félagi í Skólakór Tónlistarskóla Ísafjarðar. Aðrir kórar sem hún hefur sungið með eru m.a. Hátíðakór Tónlistarskóla Ísafjarðar, Kvennakór Ísafjarðar, Skólakór Menntaskólans á Ísafirði, Hlífarkórinn og að sjálfsögðu Gospelkór Vestfjarða, en frá haustinu 2009 hefur hún verið undirleikari og meðstjórnandi Gospelkórsins.
Sunna Karen gefur sig jöfnum höndum að klassískri tónlist og léttri tónlist. Hún hefur spilað dinnertónlist við margvíslegar samkomur á síðustu árum. Á menntaskólaárunum lék hún með Húsbandi MÍ sem sá um undirleik á söngvakeppnum skólans og síðasta árið tók hún þátt í vinningsatriðinu sem keppti fyrir hönd skólans á lokaúrslitum Söngkeppni framhaldsskólanna. Hún hefur unnið mikið með Benedikt Sigurðssyni söngvara frá Bolungarvík og saman héldu þau nokkra tónleika árin 2010 og 2011. Þá kom hún fram með Vestfirska skemmtifélaginu á skemmtikvöldum þess „Vestfirsku dægurlögin“ í fyrravetur.
Sunna Karen starfaði sem leikari og harmóníkuleikari með leiklistarhópnum Morranum sumrin 2007-2009 og hefur síðan verið áberandi í leiklistarlífi bæjarins. Hún lék, söng og spilaði í uppfærslum Menntaskólans á Ísafirði á Túskildingsóperunni, Grænjöxlum og Grease. Þá hefur hún tekið þátt í ýmsum verkefnum með Litla leikklúbbnum, s.s. Emil í Kattholti , Vegir liggja til allra átta, Dampskipið Ísland og Kötturinn fer sínar eigin leiðir, en í þeirri sýningu var hún hljómsveitarstjóri og sá um útsetningar.
Sunna Karen lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði vorið 2012 og hyggur á framhaldsnám í tónlist næsta vetur.