Sumartónleikar með suðrænu ívafi

2. ágúst 2012 | Fréttir

Sannkallaðir sumartónleikar verða í Hömrum á Ísafirði mánudaginn 6.ágúst nk, þ.e. á frídegi verslunarmanna, kl. 20:00. Tveir af efnilegustu tónlistarmönnum okkar af yngri kynslóðinni, Joaquin Páll Palomares fiðluleikari og Ögmundur Þór Jóhannesson gítarleikari, flytja fjölbreytta og aðgengilega efnisskrá með verkum eftir Paganini, Bartók, Ravel, Piazzolla og fleiri og eru dansar á borð við Tango og Habanera í fyrirrúmi þótt ýmislegt fleira sé í boði.

Miðaverð er kr. 2.000, em kr. 1.500 fyrir lífeyrisþega. Skólafólk 20 ára og yngri fá frítt inn.

 

Joaquin Páll Palomares er fæddur árið  1987 og stundaði fiðlunám við Tónlistarskóla Kópavogs þar til hann lauk burtfararprófi vorið 2005, 18 ára að aldri. Þá fékk hann inngöngu í Listaháskóla Íslands þar sem hann lauk Diplom-próf vorið 2008 en aðalkennari hans þar var Auður Hafsteinsdóttir.  Sama haust hóf hann nám við Hanns Eisler tónlistarháskólinn í Berlin þar sem hann stundar enn nám en aðalkennari hans er Ulf Wallin. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Joaquin Páll verið afar virkur í hljómsveita- og kammermúsíkstarfi hér á Íslandi og haldið fjölda tónleka bæði hér heima og erlendis. Hann var einn sigurvegara í keppninni "Ungir einleikarar" árið 2007 og lek þá einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands og einnig Sifóníuhljómsveit Alicante-borgar á Spáni.

Ögmundur Þór Jóhannesson er fæddur árið 1980 og stundaði einnig nám við Tónlistarskóla Kópavogs þar sem hann lauk burtfararprófi vorið 2000. Hann var við framhaldsnám í Barcelona í 2 ár en fór síðan til framhaldsnáms í Mozarteum tónlistarháskólann í Salzburg. Þaðan lauk hann B.Mus prófi vorið 2005 og M.Mus.prófi vorið 2008. Aðalkennari hans í Salzburg var Marco Diaz-Tamayo. Ögmundur hefur komið víða fram á tónleikum, bæði hér heima og erlendis, einn og með öðrum. Hann hefur einnig hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir frábæran lek og framúrskarandi námsárangur, m.a. 2.verðlaun í  Agustin Barrios keppninni í Frakklandi, námsstyrki frá tónlistarsjóði Rótarý, minningarsjóði Jean-Pierre Jacquillat, Sjóvá-Almennum o.fl. Árið 2010 hlaut hann starfslan listamanna.