Sópran, víóla og píanó í Hömrum á sunnudag

3. febrúar 2011 | Fréttir

Tríótónleikar verða haldnir á vegum Tónlistarfélags Ísafjarðar í Hömrum kl. 15:00  sunnudaginn 6.febrúar. Á tónleikunum koma fram listakonurnar Ingibjörg Guðjónsdóttir sópran, Herdís A. Jónsdóttir víóla og Sólveig A. Jónsdóttir, píanó.
Efnisskrá tónleikanna er einstaklega fjölbreytt og söngröddin, víólan og píanóið óma í blönduðum samsetningum og útsetningum íslenskra og erlendra tónskálda. M.a. verða flutt lög eftir Atla Heimi Sveinsson, Tryggva M.Baldvinsson, Weber og Elgar.
Tónleikarnir eru 3.áskriftartónleikar Tónlistarfélags Ísafjarðar á starfsárinu og haldnir í samvinnu við FÍT (Félag íslenskra tónlistarmanna).
Áskriftarkort gilda, en einnig verða seldir miðar við innganginn á 2.000 krónur og 1.500 krónur fyrir ellilífeyrisþega, en skólafólk 20 ára og yngra fær ókeypis aðgang.

 

ATHUGIÐ
Tónleikarnir áttu að vera nk. laugardag, en var núna breytt í sunnudag kl. 15. Þar áður höfðu þeir verið auglýstir 12.febrúar en var flýtt um eina viku af óviðráðanlegum ástæðum. Vonandi verður þetta hringl með tímasetninguna ekki til að fólk missi af þessum skemmtilegu tónleikum!!!

 

Um listakonurnar:
Ingibjörg Guðjónsdóttir stundaði söngnám við Tónlistarskóla Garðabæjar og framhaldsnám við Indiana University í Bandaríkjunum.  Hún hefur einnig notið leiðsagnar hinnar frægu sópransöngkonu Ileanu Cotrubas. Ingibjörg hefur haldið fjölda einsöngstónleika, tekið þátt í óperum, tónlistarhátíðum og verið einsöngvari með sinfóníuhljómsveitum, kammersveitum og kórum bæði hér á landi og erlendis. Síðastliðin ár hefur hún lagt kapp á að flytja samtímatónlist og frumflutt tónverk íslenskra tónskálda, m.a. með kammersveitinni Caput. Ingibjörg hefur gefið út tvær geislaplötur, Óperuaríur (2005) með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Ó Ó Ingibjörg (2007) þar sem hún syngur íslensk sönglög í frumlegum búningi með bræðrum sínum, djasstónlistarmönnunum Óskari saxófónleikara og Ómari gítarleikara. Ingibjörg er stofnandi og stjórnandi Kvennakórs Garðabæjar en einnig starfar hún sem söngkennari við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og Tónlistarskóla Álftaness.
Herdís A. Jónsdóttir lauk prófum frá Tónlistarskólanum á Akureyri 1983, Tónlistarskólanum í Reykjavík 1986 og Tónlistarháskólanum í Stuttgart 1992. Hún er fastráðinn víóluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands og hefur spilað með fjölmörgum hljómsveitum og kammerhópum hér á landi og erlendis. Herdís er meðlimur í Dúó Stemmu og hefur haldið fjölda tónleika fyrir börn á öllum aldri.
Sólveig Anna Jónsdóttir hóf píanónám á Ísafirði hjá Ragnari H. Ragnar en stundaði síðan nám við Tónlistarskólann á Akureyri, lauk kennara- og einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og stundaði framhaldsnám við University of Houston í Texas. Hún hefur lengst af haft píanókennslu og meðleik að aðalstarfi og kennir nú við Tónlistarskóla Kópavogs. Sólveig Anna hefur haldið fjölda tónleika hérlendis og erlendis sem meðleikari einsöngvara og kóra, leikið kammertónlist af ýmsu tagi og tekið þátt í flutningi verka með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslensku Óperunni og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Hún hefur verið píanóleikari Kvennakórs Garðabæjar frá hausti 2007.