Söngveisla á Veturnóttum

16. október 2014 | Fréttir

Tónlistarfélag Ísafjarðar lætur ekki sitt eftir liggja á menningarhátíðinni VETURNÆTUR, sem haldin verður í Ísafjarðarbæ 23.-26.október nk.
Gunnar Guðbjörnsson óperusöngvari og Jónas Ingimundarson píanóleikari verða með tónleika í Hömrum á laugardeginum 25.október kl. 17:00. Þar munu þeir flytja norræn sönglög en sum laganna hafa fylgt þeim um árabil. Dagskráin er fjölbreytt en samanstendur af stórum hluta af lögum frá Svíþjóð og Finnlandi. Samstarf Gunnars Guðbjörnsson og Jónasar Ingimundarsonar hefur nú staðið í hartnær 30 ár en þeir hafa gert það víðreist um lendur tónlistarinnar gegnum árin.  Nú flytja þeir dagskrá sem samanstendur meðal annars af sönglögum eftir Grieg, Peterson-Berger,  Alvén, Sibelius og Merikanto.
Norræn tónlist hefur oft verið viðfangefni tónlistarmannanna gegnum árin m.a. á  geislaplötu þeirra Söngvum en þetta er í fyrsta sinn sem þeir tileinka heila dagskrá Norðurlöndunum.   Listamennirnir hafa ferðast víða í gegnum árin til tónleikahalds, bæði  hér á landi, í Bretlandi og Þýskalandi.  Jónas hefur ótal sinnum spilað á Ísafirði og Gunnar hefur einnig sungið hér en þetta er í fyrsta sinn sem þeir félagar koma saman.  Þeir fluttu þessa sömu dagskrá í Norræna húsinu í september sl. og hlutu þá fá fádæma góðoar viðtökur.
Vestfirskir söngunnendur láta þessa tónleika vonandi ekki fram hjá sér fara!