Sjö þátttakendur í píanókeppni EPTA

11. október 2015 | Fréttir

Píanókeppni Íslandsdeildar EPTA (Evrópusamband píanókennara) fer fram í Salnum í Kópavogi dagana 3.-8.nóvember nk. Keppnin sem haldin er á 3ja ára fresti hefur löngu hlotið fastan sess í tónlistarsamfélaginu og nýtur mikillar virðingar.
Nemendur frá Tónlistarskóla Ísafjarðar hafa oftast tekið þátt í keppninni og náð mjög góðum árangri, m.a. þrisvar komist í úrslit (Hafdís Pálsdóttir árið 2003,  Kristín Harpa Jónsdóttir 2009 og Mikolaj Frach 2012). . Þátttakendur héðan hafa aldrei verið fleiri en nú eða sjö talsins. Þetta eru þau Matilda Mäekalle, en hún keppir í flokknum 10 ára og yngri, Ásdís Halla Guðmundsdóttir, Rebekka Skarphéðinsdóttir og Þuríður Kristín Þorsteinsdóttir keppa í flokknum 14 ára og yngri og loks Anna Anika Jónína Guðmundsdóttir, Mikolaj Ólafur Frach og Pétur Ernir Svavarsson sem keppa í flokknum 18 ára og yngri.
Skólinn er ákaflega stoltur af þessum myndarlega nemendahópi og óskar þeim góðs gengis í keppninni og kennurum þeirra, Beötu Joó og Iwonu Frach, innilega til hamingju.

Ekki er búið að taka mynd af þátttakendunum núna, en til gamans er birt mynd af þátttakendum í EPTA-keppninni 2003 ásamt kennurum sínum. Það var í fyrsta sinn sem TÍ tók þátt, en í 2. sinn sem keppnin var haldin. Sitjandi eru Tómas Árni Jónasson, Halldór Smárason, Eyrún Arnarsdóttir og Hafdís Pálsdóttir. Standandi eru kennarar þeirra: Sigríður Ragnarsdóttir, Iwona Frach og Beáta Joó.