Sigrún Pálmadóttir

28. janúar 2022 | Fréttir

Sigrún Pálmadóttir

Sigrún Pálmadóttir söngkennari og aðstoðarskólastjóri er hamhleypa til vinnu, en aðeins ef hún fær að borða reglulega. Sumum finnst eiginlega óþolandi hvað hún getur innbyrt af dýrindis krásum, án þess að bæta á sig einu grammi.

En kannski er það af því að hún mætir eldsnemma og gengur í öll verk, hvort sem það er að moka tröppurnar eða moka upp excel skjölum í tölvunni. Sumir halda að skipulagsgáfað excel fólk geti ekki verið fyndið líka, en Sigrúnu er nú samt einkar lagið að sjá skondnar hliðar á tilverunni. Aðeins dauðyfli geta haldið sér alvarlegum, þegar sópranskrækirnir, úpps, fyrirgefið þið, smitandi hláturinn uppi á háa C byrjar að hljóma.

En þrátt fyrir að vera tæknilega sinnuð, er Sigrún ágæt í að eyðileggja símana sína, hún gleymir þeim á bílþakinu, keyrir yfir þá og stundum fljúga þeir óvart yfir allt herbergið. Svona er það að hugsa um margt í einu.

Flestir þekkja Sigrúnu af flottum söng við ýmsar athafnir og á tónleikum hér fyrir vestan, en kannski vita ekki allir að hún á að baki glæsilegan feril sem söngkona í Þýskalandi, þar sem hún gerði garðinn frægan í ýmsum af erfiðustu sópranhlutverkum óperubókmenntanna, Næturdrottningunni, Lucìu di Lammermoor, Violettu í Traviata o.s.frv. En ekki aðeins er Sigrún framúrskarandi söngkona, heldur hæfileikarík leikkona, ekki síst gamanleikkona.

Þrátt fyrir að Sigrún sé ótrúlega pottþétt, hafa ýmis tæknileg mistök átt sér stað hjá henni á sviðinu. Einu sinni missti hún blúndubuxurnar niður um sig í miðjum can-can dansi og í annað skipti lét tæknimaður hana síga niður úr gólfinu í miðri Næturdrottningar-aríu, þar til aðeins höfuðið stóð upp úr sviðinu, en kjóllinn varð eftir á sviðinu!

En römm er sú taug og þau Biggi ákváðu að flytja heim aftur, alla leið vestur auðvitað og búa í Miðtúninu með guttana sína tvo. Sigrún og Biggi eru svona skólabókardæmi um fyrirmyndarpar, svakalega sæt, bóngóð, harðdugleg og heiðarleg með afbrigðum.

Heppin við!

Eins og fleiri óperusöngvarar er Sigrún þrusukokkur, sjá HÉR