Kveðja frá Tónlistarskóla Ísafjarðar
Við fráfall Sigríðar Ragnarsdóttur, skólastjóra Tónlistarskóla Ísafjarðar, er lokið merkilegum kafla í skóla- og menningarsögu Ísafjarðarbæjar. Sigríður hafði skýra sýn: Hún leit á tónlistarkennslu sem mikilvæga mannrækt og taldi öfluga menningu eina af forsendum byggðar á Vestfjörðum. Í einni af skólaslitaræðum sínum sagði hún: „Tónlistin er eitt af því sem telst stundum til óþarfa, en er hluti af ævintýrinu sem gerir lífið þess virði að lifa því. Það er ósk mín Tónlistarskóla Ísafjarðar til handa, að hann megi leggja sitt lóð á vogarskálina þeim megin sem ævintýrið er.“
Ævistarf Sigríðar tengdist Tónlistarskóla Ísafjarðar órofa böndum frá bernsku. Hún var dóttir skólastjórahjónanna, Ragnars H. Ragnar og Sigríðar Jónsdóttur og hóf ung nám í píanóleik hjá föður sínum. Eins og hún sagði mér sjálf, var skólinn inngróinn í erfðaefni hennar og hún leit ávallt á hann sem fjöregg sitt.
Að loknu námi við Tónlistarskólann í Reykjavík og Menntaskólann í Reykjavík hélt hún til Bandaríkjanna þar sem hún stundaði nám í tónlistargreinum og fornmálum. Aðeins tuttugu og þriggja ára að aldri var hún ráðin píanókennari við Tónlistarskólann. Árið 1984 tók hún við af föður sínum sem skólastjóri og gegndi því starfi um þriggja áratuga skeið.
Sigríður lagði sál sína í verkefnið og skólinn hélt áfram að vaxa og dafna í beinu framhaldi af starfi foreldra hennar. Varla er hægt að hugsa sér meiri alúð, heilindi, þrótt og þrautseigju í starfi. Hún sinnti því ekki aðeins af festu, heldur jafnframt hógværð, enda setti hún persónu sína ekki í fyrsta sæti. Hver manneskja í starfinu skipti hana máli, lítil sem stór.
Að auki tók Sigríður virkan þátt í fjölbreyttum tónlistarstörfum. Má þar nefna ýmsar tónleikaraðir, söngleiki og uppfærslu stórra kórverka. Það væri að bera í bakkafullan lækinn að telja upp afrek hennar í menningarsögu Vestfjarða, en hún verður mér ekki síst minnisstæð fyrir það hve hlý hún var og yfirveguð, en glettin. Eftir að ég tók við starfi skólastjóra í Tónlistarskólanum, fann ég að hugur hennar var sífellt hjá okkur. Hún fylgdist með starfinu af brennandi áhuga. Það var ómetanlegt að eignast vináttu hennar, ráðgjöf, hvatningu og hlýhug. Fyrir það þakka ég að leiðarlokum og mun ævinlega minnast hennar af djúpri virðingu.
Hugur okkar starfsfólksins í Tónlistarskóla Ísafjarðar er hjá Jónasi og fjölskyldunni allri, missir þeirra er mikill.
Blessuð sé minning Sigríðar Ragnarsdóttur.
Bergþór Pálsson