Sara Hrund Signýjardóttir ræður ríkjum í útibúinu á Suðureyri. Þegar Sara er að kenna, er eins og nemendur detti í núvitund, einbeitingin verður mjög sterk og mikil ró færist yfir. Þetta gerir Söru að afbragðs kennara.
Sara er Ævintýrakona með stóru Æ-i. Einu sinni fór hún í tjaldferðalag um 8 lönd í Afríku. Hún var auðvitað étin upp til agna af skordýrum og hitti alls konar æðislegt fólk, en var stundum hætt komin. Hlébarði tók þá ákvörðun að rífa hana í sig, en sá ekki girðinguna sem var á milli þeirra og æddi á hana í staðinn fyrir að hafa Söru í hádegismat. Einu sinni gleymdist Sara og hópurinn kominn talsvert áleiðis þegar uppgötvaðist að Sara var ekki með. En einmitt af því að hún er ekki há í loftinu, ber hún því stærri persónuleika og lætur heyra í sér þegar við á.
Hún er nefnilega að upplagi skemmtikraftur, er mjög flott á sviði, m.a. prýðileg söngkona. Hún söng með hljómsveitum í gamla daga, þegar hún var 1 cm styttri en í dag. Í kennarapartíum tekur hún gjarnan upp gítarinn og syngur eigin lög og texta. Lögin eru yfirleitt angurvær, en textinn skreyttur hispurslausum húmor, svo að við veltumst öll um af hlátri.
En Sara er líka mjög hugsandi manneskja. Stundum fer hún eldsnemma í sund á Ísafirði og kemur þá við hjá okkur á skrifstofunni. Við verðum alltaf ríkari eftir djúpar pælingar hennar um lífið og tilveruna. En hún fer ekki bara í sund, hún er eiginlega heilsugúrú, enda er hún líka íþróttakennari í grunnskólanum á Suðureyri. Hún er m.a. fjallaljón og lætur sig ekki muna um að hlaupa 16.7 km um Bjarnafjarðarháls og Trékyllisheiði niður í Selárdal og fær sér þá einn kaldan á eftir. Geri aðrir betur.