Sameiginlegir tónleikar tónlistarnema

23. apríl 2012 | Fréttir

Tónlistarskóli Ísafjarðar og Tónlistarskólinn í Bolungarvík halda sameiginlega tónleika í Félagsheimilinu í Bolungarvík sunnudaginn 13.maí kl. 14:00.  Þar kemur fram fjöldi nemenda frá Ísafirði, Suðureyri, Flateyri, Þingeyri og Bolungarvík í einleik og samleik.

Þessir tónleikar eru fyrsta skrefið í þá átt að koma á sameiginlegum tónleikum fyrir vestfirska tónlistarnema. Stefnt er að því að gera slíka tónleika að árvissum viðburði með þátttöku allra tónlistarskóla á svæðinu og helst frá öllum Vestfjörðum, eins konar sameiginlega uppskeruhátíð vestfirskra tónlistarnema og -kennara. Svæðistónleikar NÓTUNNAR, sem nýlega fóru fram á Akranesi (í fyrra í Stykkishólmi og þar áður á Hólmavík) ná því miður aðeins til örfárra skóla á Vestfjörðum og allt of fáir vestfirskir tónlistarnemar eiga möguleika á þátttöku vegna ferðakostnaðar og tímatakmarkana á tónleikunum. Á svæðistónleikum NÓTUNNAR er mikil áhersla á keppnisfyrirkomulagið sem ekki hentar öllum. Það getur hins vegar verið mjög hvetjandi fyrir nemendur að stefna á þátttöku í svona stórtónleikum og æfa fyrir þá  og ekki síður gaman og spennandi að sjá og heyra hvað jafnaldrar manns annars staðar eru að fást við í músíkinni.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is