Rúna Esradóttir

1. febrúar 2022 | Fréttir

Rúna Esradóttir

Rúna Esradóttir

Rúna Esradóttir

Þetta er hún Rúna. Hún hefur einstaklega smitandi hlátur. Það er kannski af því að hún er gleðigjafi að upplagi. Um leið hefur hún mikið jafnaðargeð og það er ekkert skrýtið þó að börnin flykkist til hennar, öllum líður einfaldlega vel þar sem Rúna er. Hún kennir á píanó og harmóníku, sér um forskóla og söngstundir leik- og grunnskólabarna.

Rúna ólst upp í Súðavík. Sumarið sem hún var 11 ára hafði hún kústskaft fyrir hest og sást ekki öðruvísi en á kústskaftinu. Henni fannst hún fara mjög hratt yfir og mælir með því að allir prófi, ungir sem gamlir. Nú er kústskafthlaup víst orðið að alvöru keppnisíþrótt, spurning hvort Rúna fann það upp?

Rúna er mjög nýjungagjörn, ekki síst í eldhúsinu. Um daginn prófaði hún t.d. að gera tikka masala frá grunni, ristaði öll fræin og malaði. Þetta er alvöru krydd í tilveruna, en hér er einhver albesti osso buco sem um getur norðan Alpaheiða.

Ekki síður hefur hún gaman af að hlusta á nýstárlega tónlist og alls konar stíla. Súrrealískir hljóðgerningar yfir í þungarokk og allt þar á milli ratar á lagalistann. Smekkur Rúnu er stundum dálítið öðruvísi en gengur og gerist, en einhvern veginn langar alla til að fylgjast með, því að það verður allt áhugavert sem hún snýr sér að.

Allt sem breytir tilverunni og er skapandi, vekur undrun og forvitni finnst henni skemmtilegt, bara svona sem dæmi ef einhverjum skyldi detta í hug að vera með hljóðgerning úti á götu og enginn veit hvað er að gerast. Eða einhver málar auga á stein úti í náttúrunni bara sisvona, öðrum til gleði og undrunar. Lífið er svo mikið undur í augum Rúnu.

Allir elska Rúnu

OSSO BUCO

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is