Ragnar H. Ragnar

28. september 2022 | Fréttir

Sigríður og Ragnar

Ragnar H. Ragnar

Í dag, 28. september, er fæðingardagur Ragnars H. Ragnar, fyrsta skólastjóra Tónlistarskóla Ísafjarðar. Ragnar tók upp eftirnafnið Ragnar í Bandaríkjunum, þar sem honum þótti óþægilegt að vera kallaður mr, Hjálmarsson, því að við notum skírnarnöfn á Íslandi. Eftir það var hann kallaður mr. Ragnar og það féll honum eðlilega betur. H-ið stendur því fyrir Hjálmarsson.

Ragnar fæddist að Ljótsstöðum í Laxárdal 28. september árið 1898. Tónlist var í hávegum höfð á bæjum í Laxárdal í uppvexti Ragnars. Hjálmar faðir hans lék á harmóníku og orgel og var góður söngmaður. Ungur lærði Ragnar m.a. nokkuð á orgelið.

Eftir nám í Samvinnuskólanum í Reykjavík flutti Ragnar til Kanada og hóf nám í píanóleik og hljómfræði í Winnipeg, ásamt kórstjórn og tónlistarsögu. Ragnar kenndi og stjórnaði kórum í meira en áratug, meðal annars stjórnaði hann karlakór Íslendinga í Winnipeg.  1936 fluttist hann til N-Dakoda í Bandraríkjunum og starfaði þar við tónlist. Ragnar gekk í herinn og gegndi herþjónustu á Íslandi til stríðsloka.  Enginn vafi er á því að starfið í hernum mótaði Ragnar mjög. Á stríðsárunum tók Ragnar að sér að stjórna söngflokki Þingeyingafélagsins í Reykjavík. Þar kynntist hann Sigríði Jónsdóttur frá Gautlöndum í Mývatnssveit. Þau gengu í hjónaband 21. júlí 1945. Ragnar og Sigríður settust að í bænum Gardar í N-Dakota og hann hóf tónlistarkennslu í Íslendingabyggðum þar.

Í september árið 1948 fluttust Ragnar og Sigríður til Ísafjarðar og hófu þar farsælan feril. Það var í frásögur fært á Ísafirði þetta haust að kominn væri nýr tónlistarmaður til bæjarins, alla leið frá hinni stóru Ameríku. Þegar þótti sýnt að um heimsborgara væri að ræða. Mikla athygli vakti strax, hversu vel Ragnar jafnan var til fara, en hann hafði tekið með sér að vestan marga alklæðnaði, sumir sögðu tuttugu, og skipti sífellt um hálsbindi.

Njörður P. Njarðvík skrifar um Ragnar: „Hann var einhvern veginn allt öðruvísi en allir aðrir. Hann var hvasseygður og skarpleitur, nokkuð langleitur og þunnur á vangann. Hann var með mikið og lifandi hár sem eins og þyrlaðist upp og aftur af höfðinu. Hann sat með krosslagða fætur og hendur í skauti. Þær voru einkennilega sléttar og hvítar, og harla ólíkar sjómannshrömmum fjarðarins. Hann var klæddur í dökkblá jakkaföt úr framandlegu efni sem bar af öllu sem drengurinn hafði áður séð, og skyrtan var svo hvít að hún var næstum sjálflýsandi. En furðulegast af öllu var hálsbindið. Það var breitt og glansandi og svo marglitt, að það var alls ekki hægt að segja hvernig það var á litinn. Af og til hreyfði maðurinn höfuðið snöggt og hvessti augun á eitthvað sem ógerlegt var að giska á hvað væri. Augun voru fremur lítil en ákaflega snör og lifandi“

Auk þess að stýra Tónlistarskóla Ísafjarðar í á fjórða áratug og kenna við hann, var hann organisti við Ísafjarðarkirkju og stjórnaði Sunnukórnum og Karlakór Ísafjarðar í áratugi.

Börn Sigríðar og Ragnars eru Hjálmar H., Anna Áslaug og Sigríður.

Ragnar hlaut fálkaorðuna og síðar stórriddarakross fyrir framlag sitt í þágu tónlistarinnar og var gerður að heiðursborgara Ísafjarðar 1978. Ragnar H. Ragnar lést á aðfangadag 1987.

Textinn að mestu fenginn að láni úr Ársriti Sögufélags Ísfirðinga frá 1998

– AE

Ragnar og Sigríður

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is