Raddprufur í Hátíðarkór Tónlistarskólans

19. nóvember 2012 | Fréttir

Í kvöld, mánudag 19.nóv. verða haldnar raddprufur fyrir söngfólk sem hefur áhuga á að starfa með Hátíðarkór Tónlistarskóla Ísafjarðar að flutningi Sálumessu (Requiem) eftir Giuseppe Verdi í mars á næsta ári. Raddprufurnar fara fram í Hömrum, sal Tónlistarskóla Ísafjarðar kl.18:30-20:30. Raddprufurnar eru fyrst og fremst ætlaðar þeim sem ekki hafa áður sungið með kórnum, en það söngfólk sem áður hefur sungið í Hátíðarkórnum og vill vera með í þessu verkefni er beðið að hafa samband við stjórnandann Beötu Joó (sími 895 3396) eða senda tölvupóst á sigridur@tonis.is  –  sömuleiðis þeir sem ekki komast í raddprufurnar á mánudagskvöldið af einhverjum ástæðum. Kórinn mun síðan hittast tvisvar fyrir jól (26.nóv. og 3.des.), þá fá kórfélagar fá afhentar nótur og æfingadiska og byrjað verður að æfa verkið.

Flutningur Sálumessunnar er samvinnuverkefni Hátíðarkórsins með Sinfóníuhljómsveit Færeyja og Kór Sinfóníuhljómsveitar Færeyja undir stjórn Bernharðs Wilkinsonar. Stefnt er að því að kórarnir og hljómsveitin flytji verkið í Þórshöfn í Færeyjum, í Reykjavík og á Ísafirði í mars 2013, í dymbilvikunni. Sinfóníuhljómsveit Færeyja fagnar 30 ára starfsafmæli á næsta ári og sama ár verður Tónlistarskóli Ísafjarðar 65 ára og er tilefnið því ærið. Sálumessa (Requiem) Verdis er eitt magnaðasta kórverk tónbókmenntanna,  ákaflega dramatískt eins og óperuskáldsins er von og vísa og afar krefjandi fyrir alla þátttakendur, einsöngvara, kór og hljómsveit. Það hefur aldrei áður verið flutt hér á Ísafirði og heldur ekki í Færeyjum en flutningur þessa fagra og stórbrotna verks hlýtur ávallt að vera mikil upplifun fyrir bæði flytjendur og áheyrendur.

Hátíðarkór Tónlistarskóla Ísafjarðar hefur starfað með hléum frá árinu 1998. Hann var stofnaður til flutnings á stærri kórverkum með hljómsveitum en helstu verkefni hans hafa verið Messías efitr Händel, Sálumessa Mozarts og kantötur eftir bach. Árið 2008 flutti kórinn Gloriu eftir Poulenc með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Bernharðs Wilkinsonar. Kórinn hefur verið skipaður söngfólki úr öllum sveitarfélögum á norðanverðum Vestfjörðum og stjórnandinn hefur frá upphafi verið Beáta Joó.

 

Meðf.mynd tók Halldór Sveinbjörnsson á tónleikum Hátíðarkórsins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands í janúar 2008.

 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur