Píanóveisla í Hömrum á sunnudagskvöld

22. október 2009 | Fréttir

Píanóleikarinn Edda Erlendsdóttir heldur einleikstónleika í Hömrum, Ísafirði sunnudagskvöldið 25.október kl. 20:00.

Á tónleikunum flytur hún verk eftir C.Ph.Em.Bach. Josef Haydn og Franz Schubert.
Tónleikarnir eru 1.áskriftartónleikar Tónlistarfélags Ísafjarðar á starfsárinu 2009-2010.
Áskriftarkort gilda, en einnig eru seldir miðar við innganginn á 1.500 kr. (1.000 f.lífeyrisþega). Skólanemendur, 20 ára og yngri, fá ókeypis aðgang.

 

Edda Erlendsdóttir er fædd í Reykjavík og nam við Tónlistarskólann í Reykjavík m.a. hjá Árna Kristjánssyni. Hún lauk þaðan einleikaraprófi 1973 en stundaði síðan framhaldsnám hjá Pierre Sancan við Tónlistarháskólann í París og lauk þaðan prófi 1978. Edda hefur haldið fjölmarga tónleika og tekið þátt í tónlistarhátíðum víða í Evrópu, Bandaríkjunum og nýverið í Kína. Hún tekur reglulega þátt í tónlistarlífinu á Íslandi bæði sem einleikari og í kammertónlist og hefur oft komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Efnisskrár hennar spanna fyrstu verkin skrifuð fyrir fortepíanó (C.Ph.Em.Bach) allt til samtímatónlistar ( Pierre Boulez) og hafa vakið athygli fyrir frumleika. Hún hefur verið ötull flytjandi íslenskrar píanótónlistar erlendis og hafa íslensk tónskáld samið fyrir hana.
Edda átti frumkvæði að árlegum kammertónleikum á Kirkjubæjarklaustri og var listrænn stjórnandi þar í 15 ár. Hún er einnig meðlimur í kammerhópnum Le Grand Tango sem undir stjórn Oliviers Manoury bandoneonleikara hefur sérhæft sig í flutningi á argentískum tangó. Edda hefur gert fjölda upptökur bæði fyrir hljóðvarp og sjónvarp og gefið út einleiksdiska sem hlotið hafa viðurkenningu og lof gagnrýnenda. Hún hefur nýverið gefið út geisladisk með píanókonsertum eftir Haydn ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Kurt Kopecky. Hljómdiskur hennar og Bryndísar Höllu Gylfadóttur sellóleikara með verkum eftir Kodaly, Martinu, Janacek og Enescu hlaut íslensku tónlistarverðlaunin árið 2004.
Edda Erlendsdóttir píanóleikari er búsett og starfandi í París. Hún er prófessor í píanóleik við Tónlistarskólann í Versölum.
 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is