Píanóhátíð Vestfjarða

20. ágúst 2022 | Fréttir, Hamrar

Píanóhátíð Vestfjarða

Það var mikið um dýrðir á fyrstu Píanóhátíð Vestfjarða, þegar þrír öndvegis píanóleikarar létu gamminn geisa.

Andrew Yang hefur borið hitann og þungann af skipulagningu þessa verkefnis, en í covid átti hann í basli með að fá vinnu eins og fleiri tónlistarmenn, sótti um kennslustarf á Patreksfirði og Hvammstanga og fékk inni á Patró. Hann er ekki bara hvalreki fyrir Vestfirði, heldur landið allt, afgangurinn á bara eftir að fatta það.

Hann fékk vini sína í lið með sér, Myung Hwang Park sem fæddist í Kóreu, en starfar í Frakklandi og Peter Tóth, ungverskan píanista sem býr í New Jersey.

Og hvílík veisla, slagharpan var þanin til hins ítrasta í efnisskrá sem spannaði allt frá Bach til Liszt og Brahms, auk 5 smáverka sem byggð eru á stefi eftir Haydn og var eitt þeirra eftir Myung Hwang. Þar kom í ljós að hann er ekki síðra tónskáld en píanóleikari, einnig í öðru verki sem Andrew spilaði glæsilega.

Tónleikarnir voru sannkölluð flugeldasýning og má segja að áhorfendur hafi fengið væna andlitslyftingu í Liszt í flutningi Peters og smiðshöggið í ungversku dönsum Brahms sendi svo viðstadda svo heita út í kvöldsvalann, að þeir fundu ekki einu sinni fyrir því að haustið væri farið að minna á sig. Takk fyrir, Andrew Yang, þetta var dásamlegt síðdegi. Lengi lifi Píanóhátíð Vestfjarða!

Kristín Mjöll Jakobsdóttir, skólastjóri tónlistarskóla Vesturbyggðar, Andrew Yang, Myung Hwang Park, Peter Tóth og Bergþór Pálsson skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar.