Pétur Ernir hlaut Nótuna

7. mars 2018 | Fréttir

Pétur Ernir Svavarsson, píanónemandi Beötu Joó, hlaut aðalverðlaun Nótunnar 2018, á lokahátíð Nótunnar sem haldin var í Eldborgarsal Hörpu í gær. Þetta er í fyrsta sinn sem Vestfirðingar hampa aðalverðlaununum en nemendur tónlistarskóla á Vestfjörðum hafa áður hlotið viðurkenningar í sínum flokki á lokahátíðinni. Pétur Ernir, lék ásamt meðleikara sínum Kristínu Hörpu Jónsdóttur lagasyrpu úr söngleiknum Wicked. Pétur Ernir og Kristín Harpa fóru á sínum tíma á söngleikinn í London og hreifst svo af honum að hann flaug ári seinna aftur til London gagngert til að sjá sýninguna. Upp úr því spratt hugmyndin um að útsetja tónlistina á einhvern hátt og úr varð lagasyrpa, útsett fyrir tvö píanó.

Vestfirðingar áttu þrjá fulltrúa á lokahátíð Nótunnar að þessu sinni, en þeir voru valdir til leiks á svæðistónleikum Nótunnar í febrúar. Þeir Oliver Rähni, nemandi Tónlistarskóla Bolungarvíkur og Nikodem Júlíus Frach, nemandi Tónlistarskóla Ísafjarðar sýndu einnig frábæra frammistöðu á tónleikunum og Oliver hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir frábæran flutning í flokki einleiks í miðnámi.
Markmið Nótunnar er að styrkja listsköpun ungs tónlistarfólks og að efla listir, menntun og menningu í samfélaginu. Þátttakendur eru frá öllu landinu, á öllum aldri og á öllum stigum tónlistarnámsins. Á lokahátíðinni voru flutt 24 tónlistaratriði sem höfðu verið valin á svæðistónleikum Nótunnar út um allt land.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur