Tónlistarskóli Ísafjarðar og Ópera Vestfjarða stóðu fyrir óperukynningu í Hömrum mánudagskvöldið 16.janúar. Á dagskránni var ein vinsælasta ópera sögunnar, Töfraflautan eftir Mozart, í flutningi Metropolitan-óperunnar undir stjórn James Levine.
Áheyrendur voru mjög ánægðir með þetta framtak og var ákveðið að mynda Óperuklúbb áhugafólks sem héldi áfram á svipaðri braut. Næsta verkefni Óperuklúbbsins verður önnur sívinsæl ópera, La Bohème eftir Puccini, en hún er einmitt næsta verkefni Íslensku óperunnar. Frumsýning verður í Eldborgarsal Hörpu föstudaginn 16.mars, og gaman er að geta þess að þar verður í öðru aðalkvenhlutverkinu (Musetta) ísfirska söngkonan Herdís Anna Jónasdóttir.