Óperukynning í Hömrum á mánudagskvöld

12. október 2016 | Fréttir

Íslenska óperan sýnir á næstunni óperuna Évgení Ónegín eftir rússneska tónskáldið Pjotr Tsjaíkovskí og verður óperan frumsýnd í Eldborg 22.október, í tilefni af þessum viðburði hefur félagið Ópera Vestfjarða ákveðið að standa fyrir kynningu á þessari óperu og verður hún í Hömrum, sal Tónlistarskóla Ísafjarðar nk mánudagskvöld 17. október kl. 19:30.
Lauslega verður fjallað um efni óperunnar og sýnd verður DVD-upptaka af kvikmynd sem gerð var af verkinu. Það var leikstjórinn Petr Weigl sem gerði myndina en tónlistinni stjórnaði Georg Solti. Kvikmyndin  er sérstæð og umdeild af því að söngvararnir leika ekki sjálfir aðalhlutverkin, heldur eru það leikarar  sem sjást á tjaldinu og söngurinn er settur við eftir á. Hvað sem því líður þá er tónlistin hárómantísk, full af ástríðum, harmi og gáska eins og búast má við hjá Tsjaikovskí. Óperan var samin við sögu eftir Alexander Púsjkin, lárviðarskáld Rússa. Hún gerist í heimi rússneska aðalsins á 19.öld og segir frá ástum systranna Tatjönu og Olgu  og svo skáldinu Lenskí og hinum hrokafulla vini hans, aðalsmanninum Onegin.
Allir eru velkomnir á óperukynninguna sem er ókeypis,en þess er óskað gestir greiði í kaffisjóð kr. 500, þó alls ekki nauðsynlegt! Aðalatriðið að þeir komi sem áhuga hafa!

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is